Spyr um auglýsingar ríkisstjórnar

Katrín Júlíusdóttir hefur sent fyrirspurn til forsætisráðherra.
Katrín Júlíusdóttir hefur sent fyrirspurn til forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur sent fyrirspurn til forsætisráðherra um auglýsingakostnað ríkisstjórnarinnar. Þar spyr hún meðal annars hvað nýleg auglýsingaherferð ríkisstjórnarinnar hafi kostað.

Katrín spyr jafnframt hvers vegna ákveðið hafi verið að birta auglýsingar til að kynna sérstaklega verk ríkisstjórnarinnar og hvort forsætisráðherra telji að upplýsingarnar varði slíka almannahagsmuni að það þurfi að setja peninga í að auglýsa þær.

„Hvar liggja mörk upplýsingaskyldu og flokkapólitískrar auglýsingaherferðar að mati ráðherra?“ spyr Katrín.

Hér má sjá spurningarnar sem hún lagði fyrir forsætisráðherra en þær eru í sex liðum:

1. Hversu miklu fjármagni hefur verið varið í auglýsingar frá ríkisstjórninni frá og með júní 2013 til dagsins í dag og hvert hefur efni þeirra verið, brotið niður á einstaka miðla með kostnaði?

2. Hversu mikið hefur hingað til kostað auglýsingaherferð, sem nýlega var farið að birta, m.a. um verk ríkisstjórnarinnar og stöðu efnahagsmála og hver er áætlaður heildarkostn­aður hennar?

3. Hversu margar auglýsingar hafa verið birtar í þessari herferð, brotið niður á einstaka miðla með kostnaði? Óskað er eftir upplýsingum um birtingaráætlun fyrir frekari auglýsingar.

4. Hvar var ákvörðun tekin um að hefja slíkar auglýsingar og af hvaða fjárlagalið eru þær greiddar?

5. Hvers vegna var ákveðið að ráðast í birtingu auglýsinga til að kynna sérstaklega verk ríkisstjórnarinnar? Telur forsætisráðherra þetta upplýsingar er varða slíka almannahagsmuni að setja beri fjármuni í að auglýsa? Hafa þessar upplýsingar ekki birst í fjölmiðlaumfjöllun um þjóð- og efnahagsmál eða verið aðgengilegar að öðru leyti?

6. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi auglýsingar? Telur forsætisráðherra eðlilegt að auglýsa án þess að um sérstakar leiðbeiningar eða nauðsynlegar upplýsingar til almennings sé að ræða? Hvar liggja mörk upplýsingaskyldu og flokkapólitískrar auglýsingaherferðar að mati ráðherra?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert