Ríkið sýknað af kröfu Vinnslustöðvarinnar

mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í morgun ríkið af kröfu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum um endurgreiðslu á sérstöku veiðigjaldi sem lagt var á sjávarútvegsfyrirtæki á fiskveiðiárinu 2012-2013. Þetta staðfestir Ragnar H. Hall, lögmaður Vinnslustöðvarinnar, í samtali við mbl.is en fyrirtækið hafði farið fram á endurgreiðslu upp á rúmlega hálfan milljarð króna. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar.

„Menn fara bara yfir forsendurnar í svona dómi og taka síðan ákvörðun út frá því. Það er engin fyrirfram afstaða til þess,“ segir Ragnar.

Vinnslustöðin telur að sérstaka veiðigjaldið hafi í raun verið eignarskattur sem lagður hafi verið á veiðiheimildir sem varðar væru af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Gjaldstofninn, svokölluð renta, væri hins vegar ekki tengdur ætluðu verðmæti veiðiheimildanna heldur væri gjaldið fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 reiknað út frá rekstrarniðurstöðum ársins 2010. Þetta þýði í raun að verið sé að skattleggja rekstur fyrirtækisins afturvirkt sem sé óheimilt samkvæmt stjórnarskránni.

Frétt mbl.is: Vinnslustöðin stefnir ríkinu

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert