„Einn verðmætasti Íslendingur 20. aldar“

Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga í skák, varð snemma þjóðhetja.
Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga í skák, varð snemma þjóðhetja. mbl.is/Kristinn

Friðrik Ólafsson, fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák, er einn verðmætasti Íslendingur 20. aldar. Þetta segir Hrafn Jökulsson í samtali við mbl.is, en Hrafn vann að gerð sérstakrar vefsíðu um Friðrik fyrir Skáksögufélag Íslands, sem formlega var opnuð klukkan 13.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra opnaði þá vefsíðuna, sem helguð er Friðriki, fyrsta stórmeistara Íslands, forseta FIDE og heiðursborgara Reykjavíkur. Sérstök athöfn var af þessu tilefni haldin Friðriki til heiðurs klukkan 13.

Á vefsíðunni er að finna yfirlit um öll þau mót sem Friðrik hefur tekið þátt í, frá árinu 1946 til þessa dags. Er síðan afrakstur fyrsta stóra verkefnis sem Skáksögufélag Íslands tekur sér fyrir hendur, en það var stofnað árið 2014.

Friðrik Ólafsson og Bent Larsen við verðlaunaafhendingu eftir einvígið árið …
Friðrik Ólafsson og Bent Larsen við verðlaunaafhendingu eftir einvígið árið 1956. Mynd úr safni Ólafs K. Magnússonar

„Heilmikið puð en skemmtilegt“

Ásamt Tómasi Veigari Sigurðssyni hafði Hrafn Jökulsson rithöfundur veg og vanda af síðunni. Í samtali við mbl.is segir hann mikla vinnu liggja henni að baki enda af miklu efni að taka.

„Þetta er heilmikið puð en skemmtilegt, og skilar sér í þessum fjársjóði sem er nú orðinn aðgengilegur öllum þeim sem hafa áhuga á skákinni,“ segir Hrafn. Friðrik réði algjörlega úrslitum um það að Ísland komst í fremstu röð í skákinni að hans sögn.

„Hér höfðu verið öflugir skákmenn, Ísland tók þátt í Norðurlandamótum og Baldur Möller var orðinn Norðurlandameistari. En þegar táningurinn Friðrik kom fram um miðjan fimmta áratuginn þá breytti það öllu. Hann varð Norðurlandameistari 1953 og vann svo glæsilegan sigur á argentínskum stórmeistara hér árið 1955.“

Illugi Gunnarsson, Friðrik Ólafsson og fleiri þyrptust í kringum tölvuna.
Illugi Gunnarsson, Friðrik Ólafsson og fleiri þyrptust í kringum tölvuna. mbl.is/Rax

Þrjú hundruð lágu á gluggunum

„Þegar hann tefldi svo við Bent Larsen í heimsmeistaraeinvíginu hér í Reykjavík árið 1956 greip hreinlega um sig skákbrjálæði á Íslandi. Loka þurfti Sjómannaskólanum þegar komnir voru átta hundruð áhorfendur. Og þrjú hundruð manns lágu á gluggunum í vetrarveðrinu og fylgdust með. Svona mætti áfram telja - hlutur Friðriks í íslensku samfélagi er í raun ómetanlegur.“

Hrafn segist hafa þá kenningu að einvígi Fischer og Spasskís hefði aldrei verið haldið á Íslandi ef ekki hefði verið fyrir Friðrik.

„Það hefði aldrei komið til greina ef Friðrik hefði ekki verið búinn að koma okkur á kortið. Engum hefði dottið það í hug. Úr varð stærsti viðburður sem fram hafði farið á Íslandi fram að þeim tíma, og hélt okkur í kastljósi heimsins mánuðum saman.“

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra opnaði síðuna við sérstaka athöfn.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra opnaði síðuna við sérstaka athöfn. mbl.is/RAX

Leiðtogafundurinn hefði aldrei orðið

„Ef við viljum taka þetta ennþá lengra þá tel ég að leiðtogafundur Reagans og Gorbachevs árið 1986 hefði aldrei komið til hefðum við Íslendingar ekki verið búnir að sanna að við gætum staðið undir eins stórum viðburði og þessum. Ég hef þess vegna útnefnt Friðrik einhvern verðmætasta Íslending 20. aldarinnar, svona ofan á alla hans snilld.“

Á síðunni er stiklað helstu æviatriðum Friðriks og skákferill hans rakinn í tímaröð, þar sem sjá má ýmsar greinar um Friðrik og glæstan afreksferil hans. Fjallað er um einstök mót með ítarlegum hætti, með fréttum og mótstöflum. Þá eru allar skákir hans birtar með fáeinum undantekningum.

Efni síðunnar er ríkulega myndskreytt auk þess sem sérstakt myndasafn fylgir, bæði frá ferli Friðriks, af ýmsum viðburðum, frænknum skákmeisturum og fjölmörgum þátttakendum í íslensku skáklífi.

Vefsíðan til heiðurs Friðriki

Frá opnun síðunnar klukkan 13.
Frá opnun síðunnar klukkan 13. mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert