Með fyrirspurn um hatursorðræðu

Hildur Sverrisdóttir hefur lagt fram fyrirspurn um hatursorðræðu.
Hildur Sverrisdóttir hefur lagt fram fyrirspurn um hatursorðræðu.

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram fyrirspurn í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar um hatursorðræðu.

Tilefnið er tiltal sem nokkrir starfsmenn Reykjavíkurborgar fengu fyrir að hafa látið falla hatursfull ummæli á opinberum vettvangi um fólk vegna trúarskoðana þess, kynhneigðar eða uppruna.

„Ég veit ekki hversu margir þetta voru, hvers eðlis ummælin voru eða hvort þau hafi verið viðhöfð á vinnutíma eða á vegum borgarinnar. Þess vegna fannst mér rétt að senda þessa fyrirspurn. Ekki bara út af þessu máli heldur almennt séð hvernig Reykjavíkurborg metur þessi mál. Hver hefur valdheimildir til þess, út frá hvaða forsendum og hvort það mat sé til dæmis í samræmi við landslög,“ greinir Hildur frá.

Flókin og vandmeðfarin mál

„Þessi mál eru vandmeðfarin. Þarna takast á mannréttindin um tjáningarfrelsið og réttindin sem felast í því að þurfa ekki að líða hatursorðræðu. Þessi mál eru flókin. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur skorið úr um að til að ummælin séu brotleg á þennan hátt þurfi að liggja fyrir ákveðnar ástæður, ummælin þurfa að hafa ákveðnar afleiðingar og svo framvegis,“ bætir hún við.

Hildur segist ekki vita til þess að rætt hafi verið efnislega hvar línan liggur þegar hatursorðræða er annars vegar. „Mér þykir þetta vera það mikilvægt mál að það verði að vera á hreinu."

Hún reiknar með því að fyrirspurnin verði tekin fyrir í fyrsta lagi eftir tvær vikur, á næsta fundi mannréttindaráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert