„Ráðamenn hlusta ekki á þjóðina“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Ljósmynd/Styrmir Kári

Um fimmtíu þúsund manns hafa tekið þátt í undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, til endurreisnar heilbrigðiskerfisins.

Á Fésbókarsíðu hans skrifa Kári og Magnús Karl Magnússon, prófessor og forseti læknadeildar Háskóla Íslands, pistil þar sem þeir segja ráðamenn hvorki hlusta á þjóð sína né sjálfa sig.

Þeir gagnrýna orð Brynjars Níelssonar, þingmanns, á Pressunni um að þeir sem hafi tekið þátt í undirskriftasöfnuninni hafi látið blekkjast af röngum fullyrðingum og hálfsannleik.

Treystu ekki þjóð sinni í Icesave-málinu

„Það segir nokkuð um álit alþingismannsins á þjóð sinni og að líkindum einhverjum sem hafa kosið hann sjálfan eða að minnsta kosti flokkinn hans, auðtrúa og auðveld fórnarlömb pokaprestinum Kára. Brynjar ætti að muna að ekki fór vel fyrir þeim stjórnmálamönnum sem treystu ekki þjóð sinni til að gera upp hug sinn í öðru máli, hinu flókna Icesave máli sem þjóðin þó leiddi til lykta,“ segir í pistlinum.

Á harðahlaupum frá eigin yfirlýsingu

„Ríkisstjórn sú er Brynjar styður lýsti því yfir fyrir réttu ári síðan í sameiginlegri yfirlýsingu með fagfélögum lækna að búa ætti heilbrigðiskerfinu sambærilegan ramma hvað varðar fjármuni og fjölda starfsmanna og önnur Norðurlönd að teknu tilliti til sérstöðu Íslands hvað varðar mannfjölda og staðhætti. Þetta er sú krafa sem 50 000 Íslendingar hafa lýst yfir stuðningi við. Það kemur okkur á óvart að ráðamenn séu nú komnir á harðahlaup í burtu frá eigin yfirlýsingu. Við þá sem enn hafa ekki gert upp hug sinn viljum við þó einfaldlega vitna í orð Brynjars Níelssonar frá árinu 2007 í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu: “En þjóðin á ekki að láta bugast þó að afstaða ráðamanna sé óskiljanleg.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert