Sýknaðir í Chesterfield-máli

Hreiðar Már, Sigurður og Magnús.
Hreiðar Már, Sigurður og Magnús. mbl

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg voru allir sýknaðir í héraðsdómi Reykjavíkur í Chesterfield málinu svokallaða í morgun. 

Saksóknari vildi nýta refsiauka

Þrímenningarnir voru ákærðir fyr­ir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Mana­gem­ent Group S.A. og eign­ar­halds­fé­laga þeirra, sam­an­lagt 510 millj­ón­ir evra haustið 2008. Það jafn­gilti nærri 70 millj­örðum króna miðað við gengi evru 7. októ­ber 2008. Sér­stak­ur sak­sókn­ari tel­ur að féð sé allt tapað Kaupþingi.

Saksóknari í málinu hafði farið fram á að Hreiðari og Magnúsi yrði gerður refsiauki, en dómar yfir þeim hafa þegar fyllt refsiramma fyrir auðgunarbrot sem er 6 ár. Vildi saksóknari að horft yrði til 9 ára fyrir þá, samanber 72. grein­ar al­mennra hegn­ing­ar­laga um aukna refs­ingu. Sigurður hafði hins vegar fengið fimm ára dóm og sagði sak­sókn­ari að horfa ætti til þess að full­nýta al­menn­an refsiramma.

Ríkissjóður greiði 32 milljónir

Þá var ríkissjóður málskostnaður þremenninganna dæmdur á ríkissjóð, en málsvarnarlaun verjanda Hreiðars Más voru 14,8 milljónir, verjanda Sigurðar um 9,5 milljónir og Magnúsar um 8,8 milljónir. Samtals rúmlega 33 milljónir.

Chesterfield-málið er það síðasta sem er í gangi gegn fyrrum stjórnendum Kaupþings, en áður hefur verið dæmt í Al-thani málinu á báðum dómstigum. Þá er beðið að Hæstiréttur taki fyrir markaðsmisnotkunarmál Kaupþings og Marple-málið svokallaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert