Neitað um að eyða andvana fóstri

Löggjöf um fóstureyðingu á Írlandi er ein sú strangasta í heimi en þær eru aðeins leyfðar þegar líf eru í hættu. Því ferðast um 4000 þungaðar konur og stúlkur frá landinu á ári hverju til að fara í fóstureyðingu. Gaye Edwards er ein þeirra en ljóst var frá 20 viku að fóstrið myndi ekki lifa af. 

Hún er stödd hér á landi í tengslum við sýningu á myndinni Take the boat sem fjallar um fóstureyðingalögggjöf á Írlandi en myndin verður sýnd í Bíó Paradís í kvöld. 

Fimmtán ár eru liðin frá því að Edwards gekk í gegnum erfitt ferli þar sem hún þurfti að ferðast til Belfast á N-Írlandi til að komast í fóstureyðingu, en á meðal þess sem hún segir vera erfitt við að ferðast á milli landa sé að hún hafi ekki mátt taka fóstrið með sér tilbaka og að það hafi verið brennt án þess að hún og maðurinn hennar hafi getað viðstödd.

Sorcha Tunney er herferðarstjóri Amnesty International á Írlandi og hún segir segir að þrátt fyrir lítið hafi gerst í þessum málum sé það vilji almennings að knýja fram breytingar. „81% fólks vill auka aðgengi að fóstureyðingum þegar um andvana fóstur, nauðganir eða sifjaspell er að ræða,“ segir Tunney og vísar í könnun sem samtökin létu gera í maí.

Hvorki konur sem verða þungaðar í kjölfar nauðgunar eða sifjaspells né konur sem eiga á hættu að glata heilsu sinni vegna þungunar eiga kost á fóstureyðingu á Írlandi. Þá mega konur ekki leita sér fóstureyðingar þegar um alvarlega fósturgalla ræðir eða fóstrið er ekki lífvænlegt. Írland, Andorra, Malta og San Marino og eru einu löndin í Evrópu sem banna konum að leita sér fóstureyðingar, jafnvel þegar um nauðgun er að ræða, alvarlega fósturgalla eða þungun stefnir heilsu þeirra í hættu. 

Sett var inn ákvæði í stjórnarskrá Írlands árið 1983 um að líf fósturs sé jafnrétthátt lífi móður. En þeir sem berjast fyrir breytingum segja að líf fóstursins hefur í raun meira vægi en líf móðurinnar.  Heilbrigðisstarfsfólk veigri sér jafnvel við því að veita konum og stúlkum upplýsingar um fóstureyðingar þar sem slíkt getur leitt til kæru fyrir að stuðla að fóstureyðingum og hlotið sekt allt að 600.000 kr.

mbl.is hittt Tunney og Edwards í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert