Þungt haldin á gjörgæslu

Photo: Mbl.is

Kona á þrítugsaldri er þungt haldin í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans eftir köfunarslys í Silfru á Þingvöllum um hádegi í gær.

Lögreglunni á Selfossi barst tilkynning um slysið klukkan 12:42 og héldu lögregla og sjúkralið frá Selfossi og höfuðborgarsvæðinu ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar á staðinn vegna alvarleika slyssins. Konan, sem er er erlendur ferðamaður, var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann. Líðan hennar er alvarleg.

Vinsældir þess að kafa í Silfru hafa vaxið með auknum straumi ferðamanna hingað til lands og fóru um 20 þúsund manns í fyrra ofan í Silfru á móti fimm þúsundum fyrir fimm árum.

Átta ferðaþjónustufyrirtæki eru með skráð leyfi frá Samgöngustofu til að reka starfsemi við Silfru. Samgöngustofa fer yfir búnað þeirra og vottar að viðkomandi fyrirtæki standist kröfur um öryggi og búnað gesta.

Köfunarslys í Silfru hafa verið algeng síðustu ár og oft hefur mátt litlu muna, stundum hársbreidd á milli lífs og dauða. Tvö banaslys hafa orðið síðustu fimm ár, Íslendingur lést í desember 2012 og erlendur ferðamaður lést þar 2010. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert