Er íslenskt starfsfólk þjófóttara?

Frá miðnæturopnun í Smáralind.
Frá miðnæturopnun í Smáralind. mbl.is/Eggert

41% rýrnunar vegna þjófnaðar á Íslandi er talin vera af völdum starfsmanna. Meðaltalið í Evrópu er 29%. Á sama tíma gerir nútímatækni vinnuveitendum kleift að ganga langt inn á friðhelgi starfsfólks síns. Þetta er meðal þess sem kom fram á málþingi um vinnslu persónuupplýsinga sem fram fór í dag í hátíðarsal Háskóla Íslands. 

„Erfitt er að ímynda sér það fyrirtæki sem ekki vinnur með persónuupplýsingar í dag,“ sagði Alma Tryggvadóttir skrifstofustjóri upplýsingaöryggis hjá Persónuvernd. „Það er alltaf einhver rafræn vinnsla og skráning sem á sér stað í tengslum við veitingu þjónustu eða sölu á vörum.“

Ör þróun tækninnar hefur í för með sér fjölda áskoranna á vettvangi persónuverndar að sögn Ölmu. 4,9 milljarðar snjalltækja væru þannig í umferð á heimsvísu og gert sé ráð fyrir því að fjöldinn nái fimmtíu milljörðum árið 2020.

Vöktunin er sögð ganga langt inn á friðhelgi einstaklingsins.
Vöktunin er sögð ganga langt inn á friðhelgi einstaklingsins. mbl.is/Golli

Ert þú ekki búinn að vera lengi í kaffi?

Vék hún máli sínu að vöktun vinnuveitenda á starfsmönnum.

„Yfirmenn geta til dæmis horft á starfsmenn sína í rauntíma og svo sagt við þá: „Heyrðu, ert þú ekki búinn að vera dálítið lengi í kaffi?“ eða „Af hverju ertu klæddur í úlpu á meðan þú ert að afgreiða?“

Sagði hún vöktunina þannig vera orðna miklu meiri en áður og að hún gengi langt inn á friðhelgi einstaklingsins. „Í þessu sambandi þarf að huga að meðalhófinu og hreinlega spyrja sig; „Eru þessar upplýsingar nauðsynlegar eða ekki?““

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu sagði rafræna vöktun geta farið fram í tvennum tilgangi, annars vegar vegna öryggis- og eignavörslu og hins vegar til að athuga vinnuskil starfsmanna.

„Óheimilt er að vakta vinnuskil nema það teljist nauðsynlegt og ef ekki er hægt að koma slíku eftirliti fyrir með öðrum hætti, samkvæmt því sem segir í lögum,“ sagði Andrés og bætti við að ljóst væri að umrætt lagaákvæði væri mjög matskennt.

Upptökur hafa reynst starfsfólki mikilvægt haldreipi að sögn Andrésar.
Upptökur hafa reynst starfsfólki mikilvægt haldreipi að sögn Andrésar. mbl.is/Eggert

Bitur veruleiki blasir við Íslendingum

„Hinn bitri veruleiki sem við okkur blasir er hins vegar sá að rýrnun af völdum þjófnaðar á Íslandi er talinn nema um fjórum til sex milljörðum króna á ári hverju. Þegar litið er til þess hversu stór hluti tjónsins verður af völdum starfsmanna er ekki um uppörvandi tölur að ræða,“ sagði Andrés.

„Á Íslandi er 41% rýrnunar vegna þjófnaðar talin vera sökum starfsmanna. Meðaltalið í Evrópu er 29% og vandinn er því mun meiri hér en annars staðar.“

Andrés sagði viðfangsefnið margslungið því heimildirnar væru ekki síður mikilvægar fyrir það starfsfólk sem að ósekju er vænt um þjófnað. „Upptökur hafa reynst starfsmönnum mikilvægt haldreipi gagnvart slíkum ásökunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert