Helgi hættir sem skólastjóri

Hörðuvallaskóli.
Hörðuvallaskóli. Ljósmynd/Kópavogsbær

Helgi Halldórsson, skólastjóri Hörðuvallaskóla, hefur sagt upp störfum og mun ljúka þeim að óbreyttu í lok apríl. Þetta kemur fram í bréfi sem Helgi sendi foreldrum barna í skólanum nýverið.

„Ég er búinn að vera tengdur skólamálum í 44 ár. Lengst af á Egilsstöðum, í 27 ár, sem kennari, aðstoðarskólastjóri, skólastjóri og bæjarstjóri. Svo kom ég hingað í Kópavoginn fyrir tæpum 15 árum. Og nú finnst mér þetta vera orðið gott,“ segir Helgi léttur í bragði í samtali við mbl.is.

Spurður hvað taki við í kjölfar starfslokanna segist Helgi ekki vera með ákveðnar áætlanir. „Það er hitt og þetta sem maður hefur verið að dunda sér við í gegnum tíðina og það heldur vafalaust áfram. Ég hef verið að skrifa svolítið, mestmegnis fyrir sjálfan mig þó. Það er að minnsta kosti ekkert sérstakt svona í nánustu framtíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert