Hótað morði eftir dauða Sigurðar

Sigurður Hólm lést í fangaklefa á Litla-Hrauni árið 2012. Annþór …
Sigurður Hólm lést í fangaklefa á Litla-Hrauni árið 2012. Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða hans. mbl.is/Brynjar Gauti

Fangi á Litla-Hrauni sem gaf Sigurði Hólm Sigurðssyni lyf fyrir dauða hans hótaði Berki Birgissyni, sem er ákærður vegna láts Sigurðar ásamt Annþóri Kristjáni Karlssyni, dauða ef hann segði frá því. Þetta sagði Börkur í framburði sínum við fyrirtöku málsins gegn þeim Annþóri í Héraðsdómi Suðurlands í morgun.

Bæði Börkur og Annþór neita því að hafa valdið dauða Sigurðar í fangelsinu árið 2012 með því að hafa sparkað eða slegið hann eins og þeim er gefið að sök í ákæru ríkissaksóknara. Þeir báru báðir að þeir hafi rætt við Sigurð á vinsamlegum nótum áður en hann lést en hann hafi verið illa á sig kominn vegna neyslu á morfínskyldu lyfi sem annar fangi hafi gefið honum. Annþór hafi ráðlagt honum að fara inn í klefa sinn svo að fangaverðir sæju hann ekki undir áhrifum. Tvímenningarnir hafi áfram rætt við Sigurð inni í klefanum.

Börkur bar að fanginn, sem hafi í tvígang ráðist á sig í fangelsinu, hafi komið til sín eftir dauða Sigurðar og sagt að ef Börkur segði frá því að hann hefði fengið Sigurði efnið þá myndi hann drepa hann. Börkur sagðist vita að fanginn hefði látið Sigurð fá lyfið.

Reynt að ráða í mjólkurglas Sigurðar

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari, spurði Börk út í atferli hans í eldhúsi fangelsisins þar sem þeir Annþór ræddu fyrst við Sigurð og sést á upptökum úr öryggismyndavél. Sérstaklega spurði hann út í að Börkur hefði tekið mjólkurglas sem Sigurður hafði verið að drekka úr og hellt afganginum úr því í vaskinn. Lagt er út frá því hátterni í atferlisskýrslu sálfræðinga í gögnum málsins.

Börkur, sem var klæddur í grá jakkaföt og huldi augu sín með svörtum sólgleraugum nema rétt á meðan hann bar vitni, sagðist aldrei hafa verið spurður út í þá háttsemi og hafi ekki áttað sig á að þetta atriði væri talið hafa sérstaka þýðingu fyrir málið fyrr en hann það í atferlisskýrslu sem lögð var fram í málinu. 

Í framburði Annþórs fyrr um morguninn kom fram að Börkur hafi haft umsjón með eldhúsinu og hann hafi því gengið frá glasinu fyrir Sigurð. Börkur bar ennfremur að Sigurður hafi „ekki meikað“ að ganga frá því sjálfur þar sem honum hafi liðið illa eftir inntöku lyfsins. Ekkert annað hafi legið að baki því að hann hafi hellt úr glasi Sigurðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert