Lengsta förin til prestsverka

Sonja Magnúsdóttir Sharp ásamt sonum sínum, Damien Magnusi Sharp, til …
Sonja Magnúsdóttir Sharp ásamt sonum sínum, Damien Magnusi Sharp, til vinstri, og Tristan Þorbergi Sharp, sem hafa nú verið fermdir.

Séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur lagði á dögunum í langferð alla leiðina til Höfðaborgar í Suður-Afríku. Meðal verkefna í ferðinni var að ferma tvo bræður, Damien Magnus Sharp og Tristan Þorberg Sharp. Móðir þeirra er íslensk, Sonja Magnúsdóttir Sharp, en faðirinn frá Suður-Afríku, Rob Sharp.

Fermingin fór fram í lúthersku kirkjunni í Höfðaborg sl. sunnudag. Eldri bróðirinn, Damien Magnus, var skírður í þessari kirkju árið 2000 en Tristan Þorbergur var skírður árið 2002 í Dómkirkjunni í Reykjavík, af sr. Hjálmari.

11.500 km leið

Fermingarmessan var fjölsótt, að sögn Hjálmars, en hann hefur ekki farið í jafnlanga ferð til prestsverka á sínum ferli, um 11.500 km leið. Hjálmar predikaði í messunni og þjónaði ásamt heimaprestinum, Walter Schwär, en safnaðarmeðlimir eru til jafns hvítir á hörund og svartir.

Móðurafi strákanna er Magnús Marteinsson verkfræðingur. Eftir nám í Þýskalandi fór hann til starfa í mannvirkjagerð í Sambíu og síðar Ródesíu (nú Simbabve). Þar kynntist hann eiginkonu sinni, Þorbjörgu Möller, sem hafði farið utan til að heimsækja vinafólk sitt. Þau eignuðust tvær dætur, Sonju og Helgu Möller (ekki söngkonan), en Sonja hefur til margra ára dvalið í S-Afríku.

Magnús og Þorbjörg bjuggu í Afríku til ársins 1980. Komu þá til Íslands en sneru aftur út átta árum síðar, þá til S-Afríku. Síðustu árin voru þau í Jóhannesarborg en árið 1994 leist þeim ekki á blikuna. Óeirðir voru orðnar miklar milli hvítra og svartra og sneru þau heim að nýju. Þorbjörg lést árið 2001, eftir nokkurra ára baráttu við krabbamein, og var jarðsungin frá Dómkirkjunni.

„Ég kynntist þeim hjónum mánuðina áður, var með þeim á þeirri vegferð og tengdist fjölskyldunni vinaböndum,“ segir Hjálmar um ástæðu þess að hann lagði þetta langa en ánægjulega ferðalag á sig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert