Safna fyrir konur á flótta

Móðir og barn á flótta.
Móðir og barn á flótta. Andrew McConnell/PANOS

Konur á flótta upplifa sérstaklega mikla ógn þegar þær fara á óupplýst salerni sem eru fyrir bæði kyn og mörg dæmi eru um að konur hætti að drekka og nærast til að sleppa við að nota salernisaðstöðu af ótta við ofbeldi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá UN Women á Íslandi, en í dag hefst neyðarsöfnun samtakanna fyrir konur á flótta.

UN Women stóð nýverið fyrir útttekt á landamærastöðvum Makedóníu og Serbíu en í ljós kom að konur búa við stöðuga hættu á ofbeldi, kynferðislegri misnotkun og mansali. Þær konur sem ferðast einar með börn sín eru sérstaklega berskjaldaðar.

Talið er að 12% kvenna sem ferðast yfir Miðjarðarhafið séu með barni, auk þess sem margar hafa ungabarn með sér.

„Konur og stúlkur á flótta sem ferðast nú um vestanverðan Balkanskaga á leið sinni til ríkja Evrópusambandsins hafa ákveðnar þarfir og hafa lent í ýmsu sem ekki er næilega vel tekið mið af. Það er því mikilvægt að virða rétt þeirra til að halda í reisn sína,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, svæðisstjóri UN Women í Evrópu og Mið-Asíu.

Í tilkynningu UN Women á Íslandi segir að oft sé svefnaðstaða fyrir flóttafólkið ekki kynjaskipt og margar konur sniðgangi hana af ótta við ofbeldi og sofi heldur fjarri flóttamannabúðunum, undir berum himni.

UN Women hvetur alla til að senda sms-ið konur í síma 1900 og veita konum á flótta vernd og öryggi. Með sms-inu leggur fólk 1.000 krónur til söfnunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert