Samskiptin við Sigurð „vinsamleg“

Annþór á leið í dóm í fylgd lögreglu. Myndin er …
Annþór á leið í dóm í fylgd lögreglu. Myndin er úr safni.

Annþór Kristján Karlsson, sem sakaður er um að hafa valdið dauða Sigurðar Hólm Sigurðssonar á Litla-Hrauni, bar að honum og Berki Birgissyni hafi þótt vænt um samfanga sinn og að samskipti þeirra hafi verið góð þegar mál gegn þeim var tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands í morgun.

Tvímenningarnir eru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða Sigurðar með því að veita honum högg eða spark árið 2012. Hann hafi látist vegna blæðingar frá milta. Útgáfa Annþórs af atburðunum var hins vegar á allt annan veg þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi í morgun.

Þeir Börkur hafi talað við Sigurð á vinsamlegum nótum í eldhúsi fangelsisins daginn sem hann lést. Saksóknari spurði hann út í fyrri samskipti þeirra og hvort þeir hefðu átt einhverjar óuppgerðar sakir. Annþór sagðist hafa kynnst honum fyrst árið 1997 í fangelsi og neitaði að hafa átt eitthvað sökótt við hann.

Saksóknari spurði Annþór út í hurð sem Sigurður átti að hafa brotið á gistiheimili. Annþór sagðist halda að hann hafi verið drukkinn og reynt að komast inn til „einhverrar vinkonu“ sinnar. Hann vildi þó ekki gefa upp hvernig hann sjálfur tengdist því máli. Hann minntist þess ekki að hafa gengið eftir honum með greiðslu á hurðinni en Sigurður hafi samþykkt að greiða 50.000 krónur fyrir skemmdirnar.

Í vímu af morfínskyldu lyfi

Sigurður var illa á sig kominn þegar þeir Börkur ræddu við hann í eldhúsi fangelsisins, að sögn Annþórs. Hann hefði að eigin sögn tekið lyf skylt morfíni sem annar fangi hafi fengið honum og honum hafi verið flökurt. Annþór sagði að þeim Berki hafi þótt vænt um Sigurð og þeir hafi haft áhyggjur af heilsu hans.

Þeim hafi virst Sigurður sljór og hann hafi fengið ógleðitilfinningu. Eftir að þeir skildu við hann í klefa sínum hafi Annþór farið í sturtu en Börkur síðar komið til sín að sagt að eitthvað væri að. Þá hafi Sigurður legið í rúmi sínu og verið ælandi upp í sig. Skynjun Annþórs hafi verið sú að Sigurður ætti erfitt með andardrátt. Hann hafi velt honum á hliðina eins og hann hafi lært á fyrstu hjálpar námskeiðum og kallað á aðra fanga og fangaverði. Þeir hafi hins vegar brugðist seint við.

Geyma fíkniefni uppi í rassgatinu

Saksóknari spurði Annþór út í látbragð sitt gagnvart Sigurði eins og það birtist í upptökum úr öryggismyndavélum, meðal annars hvers vegna hann hafi ekki tekið í hönd Sigurðar þegar hann rétti hana fram.

Annþór bar því við að þegar fangar væru á fíkniefnum geymdu þeir efnin „uppi í rassgatinu á sér“. Af margra ára reynslu af fangelsisvist hefði hann því þá reglu að taka aldrei í hönd fanga sem eru á fíkniefnum. Í því hafi ekki falist neinn kali í garð Sigurðar.

Þá kannaðist Annþór ekki við að hafa reynt að innheimta skuld eða þvinga fé út úr Sigurði sem hann hafði fengið frá vistheimilanefnd. Gagnrýndi hann ákæruvaldið fyrir að það skuli halda „þessum tilbúningi áfram“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert