Stöðugleikaframlög 384 milljarðar

Björn Valur Gíslason, varaformaður VG.
Björn Valur Gíslason, varaformaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stöðugleikaframlög til ríkissjóðs nema samtals 384,3 milljörðum króna, að því er segir í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Vali Gíslasyni, þingmanni VG, um samkomulag stjórnvalda og slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja.

Þar vegur framlag vegna viðskiptabanka mest, eða 288,2 milljarðar króna. Þar af er framlag Íslandsbanka langhæst, eða 184,7 milljarðar króna.

Mat fjármálaráðuneytisins á eignum er að örlitlu leyti frábrugðið þeirri tölu sem birtist í greinargerð Seðlabankans frá 27. október 2015, þar sem heildarfjárhæðin er metin 379 milljarðar krónur. 

Telja stöðugleikaframlag áhættuminna

Björn Valur spurði út í helstu ástæður fyrir því að slitabúum er gefinn kostur á greiðslu stöðugleikaframlags í stað þess að sæta skattlagningu.

Í svarinu kemur fram að tilgangur stöðugleikaskattsins hafi verið að draga úr neikvæðum áhrifum sem uppgjör við erlenda kröfuhafa fallinna viðskiptabanka og sparisjóða hefði haft á þjóðarbúskapinn við losun fjármagnshafta að öðru óbreyttu.

Þar segir að leið nauðasamninga á grundvelli undanþágu að uppfylltum stöðugleikaskilyrðum sé metin skilvirkari og áhættuminni en leið stöðugleika skatts að sömu markmiðum. Sú leið flýti fyrir því að hægt verði að hrinda í framkvæmd næstu skrefum áætlunar um losun fjármangshafta.

„Fjárhæð stöðugleikaframlags endurspeglar þá áhættu sem stafar af ráðstöfun innlendra eigna búanna en mun breytast í samræmi við breytingar á virði eignanna. Þannig er dregið verulega úr hættu á því að hærra verðmat eigna við sölu en gert er ráð fyrir nú muni valda óstöðugleika,“ segir í svarinu.

Heildarfjárhæð endurheimta tæpir 500 milljarðar

Björn Valur spurði einnig hversu mikið fé kröfuhafar í slitabúin fái heimild til að flytja úr landi innan gjaldeyrismarkanna.  

Í svarinu kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands er heildarfjárhæð endurheimta kröfuhafa, bæði innlendra og erlendra, af innlendum eignum slitabúa 497 milljarðar króna. „Væru það allt lausar eignir gæti skapast mikill þrýstingur á gjaldeyrismarkaði en miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er gert ráð fyrir að af þessari fjárhæð muni 131 milljarði kr. verða skipt í erlendan gjaldeyri,“ segir í svarinu.

„Það sem eftir stendur, eða 375 milljarðar kr., skiptist í gjaldeyrisinnlán, aðrar innlendar gjaldeyriseignir og skuldabréf Landsbankans til slitabús LBI hf. Gjaldeyrisinnlánum fyrir um 77 milljarða kr. verður breytt í markaðshæf skuldabréf með gjalddaga árið 2023,“ segir einnig.

„Skuldabréf Landsbankans til slitabús LBI hf. nam um 149 milljörðum kr. í árslok 2015. Lokagjalddagi þess er árið 2026 og eru 122 milljarðar kr. af eftirstöðvunum á gjalddaga 2020 eða síðar. Loks er gert ráð fyrir að um 140 milljarðar kr. af innlendum gjaldeyriseignum verði nýttir til greiðslu forgangskrafna en eftirstöðvar þeirra krafna nema 210 milljörðum kr.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert