Hálka og skafrenningur á Reykjanesbraut

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hálka og skafrenningur er á Reykjanesbraut en hálkublettir eru nokkuð víða á Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu. Hálka og óveður er á Kjalarnesi en þæfingsfærð í Hvalfirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. 

Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði en hálka í Þrengslum.  Það er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum á Suðurlandi en þæfingsfærð á nokkrum vegum í uppsveitum.

Hálka og snjóþekja er á Vesturlandi og víða skafrenningur. Þungfært og skafrenningur er á Bröttubrekku. Ófært er á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum, skafrenningur á flestum fjallvegur og éljagangur nokkuð víða. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og  Klettsháls en þæfingsfærð og éljagangur á Þröskuldum .

Hálka eða snjóþekja og éljagangur eru á Norðurlandi. Þæfingsfærð er á flestum leiðum í Eyjafirði einnig í Kinninni og á Fljótsheiði. Búast má við að færð þyngist þegar liða fer á kvöldið þá aðallega í kringum Akureyri og þar fyrir austan. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Hófaskarði.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir. Þæfingsfærð og skafrenningur er á flestum fjallvegum eins og á Vopnafjarðarheiði, Fagradal, Fjarðarheiði og Oddskarði einnig á Vatnsskarði eystra. Hálka eða hálkublettir eru með suðausturströndinni.

Skafrenningur  er í Öræfasveit og á Skeiðarársandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert