Slæm spá fyrir ferðalanga

Esjan mun veita höfuðborgarbúum skjól fyrir norðaustanáttinni að minnsta kosti …
Esjan mun veita höfuðborgarbúum skjól fyrir norðaustanáttinni að minnsta kosti fram eftir degi. mbl.is/Árni Sæberg

Það verða él og skafrenningur um landið norðanvert í dag en úrkomulítið syðra. Það er hins vegar líklegt að það skafi einnig þar og getur færð spillst víða. Þetta kemur fram í athugasemd á vef Veðurstofu Íslands.

Hálkublettir eru á höfuðborgarsvæðinu og víða á Reykjanesi. Á Suðurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum en þæfingsfærð á Suðurstrandarvegi, Lyngdalsheiði og nokkrum öðrum vegum í uppsveitum. Skafrenningur er nokkuð víða. 

Hálka og snjóþekja er víðast hvar á Vesturlandi en þæfingsfærð á Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum  en þæfingsfærð á Kleifaheiði og þungfært á Þröskuldum og Klettsháls. Verið er að kanna færð á Steingrímsfjarðarheiði.

Hálka eða hálkublettir eru á Norðurlandi vestra en víða snjóþekja á Norðausturlandi.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir en greiðfært er á Fagradal og áfram að Djúpavogi. Hálka er síðan með suðausturströndinni og skafrenningur í Öræfasveit.

Höfuðborgarsvæðið í skjóli frá Esjunni

Í dag verður norðaustanátt á landinu og algengur vindhraði á bilinu 10-15 m/s. Þó ber að nefna að stærstur hluti höfuðborgarsvæðisins verður í skjóli af Esjunni fram eftir degi, en norðanáttin gæti náð sér á strik síðdegis, sérílagi í vesturbænum.

„ Einnig má minnast á að norðaustantil á landinu lætur vindurinn bíða eftir sér fram að hádegi. Það verður éljagangur fyrir norðan sem ágerist þegar líður á daginn. Annars staðar verður úrkomulaust að mestu, en reyndar er snjókomubakki er skammt suður af landinu og gæti hann hreytt úr sér um tíma allra syðst. Það er kalt í veðri um þessar mundir, frost víða 3 til 8 stig í dag,“ segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert