Telur játningar afar óáreiðanlegar

Lúðvík Bergvinsson við hlið Ragnars Aðalsteinssonar í héraðsdómi í gær.
Lúðvík Bergvinsson við hlið Ragnars Aðalsteinssonar í héraðsdómi í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Lúðvík Bergvinsson, lögmaður Tryggva Rúnars Leifssonar og afkomenda Sævars Ciesielski, er afar ánægður með þær upplýsingar sem komu fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Þá fóru fram skýrslutökur sem eru hluti af rannsókn endurupptökunefndar vegna endurupptökubeiðnar dómfelldu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Mikill akkur fyrir rannsóknarvinnuna

„Í skýrslutökunum í gær var mikil áhersla lögð á þá rannsókn sem gerð hefur verið á áreiðanleika játninga hinna dómfelldu, en sakfelling þeirra var alfarið byggð á játningum fyrir lögreglu og fyrir dómi á rannsóknarstigi. Það var mikill akkur fyrir þá rannsóknarvinnu sem er í gangi fyrir endurupptökunefnd að fá starfshópinn til að skýra nálgun sína og aðferðarfræði,“ segir Lúðvík.

Játningar eftir atvikum falskar 

„Eins var afar mikilvægt að fá dr. Gísla Guðjónsson til að gera ítarlega og vandaða grein fyrir niðurstöðum sínum varðandi játningar hinna dómfelldu, sem hann telur afar óáreiðanlegar eða eftir atvikum falskar, en Gísli er auðvitað helsti sérfræðingur heims á sviði réttarsálfræði.“

Frétt mbl.is: Ný sönnunargögn voru sett fram

Mikið spurt um rannsóknaraðferðir 

Seinni hluti skýrslugjafarinnar fyrir héraðsdómi laut að skoðun á rannsóknum og rannsóknaraðferðum lögreglu-, ákæru- og dómsvalds á sínum tíma. Þrír einstaklingar, sem komu að rannsókn málsins á sínum tíma, komu fyrir dóminn.

„Því miður mundu þeir lítið sem ekkert úr rannsóknum sínum á Guðmundar- og Geirfinnsmálum, hvorki er varðaði upphaf málsins né síðari rannsóknir eða rannsóknaraðferðir en mikið var spurt um þær,“ bætir Lúðvík við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert