Fara líklega fram á gæsluvarðhald

Rannsókn lögreglunnar á Vesturlandi á eldsvoða á Saurbæ í Dölum í nótt er í fullum gangi. Karlmaður, sem er grunaður um að hafa kveikt í Hótel Ljósalandi, hefur verið yfirheyrður sem og sjónarvottar. Hann er enn í haldi lögreglu og líklegt þykir að lögreglan fari fram á gæsluvarðhald yfir honum á grundvelli rannsóknarhagsmuna, samkvæmt heimildum mbl.is.

Laust fyrir klukkan fimm í morgun barst tilkynning um að ölvaður maður gengi berserksgang við Hótel Ljósaland og fór lögregla á vettvang. Um hálftíma síðar barst tilkynningum að eldur væri laus í byggingunni og var slökkvilið kallað út. Maðurinn var handtekinn á staðnum og færður í fangaklefa. 

Sjónvarvottar sem mbl.is hefur rætt við, segja að aðkoman hafi verið mjög ljót og eldurinn mikill. Í fyrstu óttuðust menn að maður væri inni í húsinu. Það reyndist hins vegar ekki vera og sakaði engan. Þá voru engir gestir voru á hótelinu þegar kviknaði í byggingunni. Mörgum hafi hins vegar verið brugðið.

„Þetta leit ekki vel út í byrjun,“ segir Vilhjálmur H. Guðlaugsson, slökkviliðsmaður í slökkviliði Dalabyggðar, í samtali við mbl.is. Veðrið var hins vegar slökkviliðsmönnum hliðhollt. „Við hefðum ekki mátt vera 10 mínútum seinna á ferðinni, því þá hefði þetta getað farið mjög illa. Við náðum fljótlega þokkalögum tökum á þessu, þannig lagað,“ segir Vilhjálmur

Jóhannes Haukur Hauksson, slökkviliðsstjóra slökkviliðsins í Dalabyggð, sagði í samtali við mbl.is í dag, að slökkvistarf hefði gengið betur en á horfðist í fyrstu þar sem að veðurskilyrði voru góð og lítill vindur. Eldurinn var hins vegar mikill en rúmlega þriðjungur hússins er ónýtur.  Ekki liggur fyrir hver eldsupptök voru, en slökkvistarfi lauk að mestu um hádegisbil í dag. 

Rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi rannsakar málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert