Vargur í veislu á Brekknasandi

Langvían sem komst lífs af fékk að búa í pappakassa …
Langvían sem komst lífs af fékk að búa í pappakassa í bílskúrnum. ljósmynd/Líney Sigurðardóttir

Mikið af dauðum svartfugli er á Brekknasandi við Þórshöfn en eitthvað er líka um máttfarinn, lifandi fugl, sem vargurinn sækir grimmt í.

Fréttaritari var á göngu um sandinn í dag og sá þar töluvert af dauðum fugli sem vargfuglinn var búinn að kroppa.

Labradorinn Burton hljóp á undan og fældi í burtu hrafn sem var að búa sig undir að kroppa í krás á köldum sandi, það var lifandi langvía en hundurinn kom í veg fyrir það. Ekki var hægt að hugsa sér það að skilja fuglinn eftir á sandinum til að verða étinn þar lifandi og var hann tekinn með heim.  Hundurinn tók aftur á rás og í það sinn að stórum mávi sem var byrjaðu að kroppa í annan lifandi fugl og ætlaði ekki að sleppa fengnum þegar hundurinn kom þjótandi, heldur reyndi hann að fljúga upp með langvíuna en missti hana. Hún var líka tekin með heim en hefur líklega ekki lifað af fallið frá mávinum því hún var dauð þegar heim var komið.

Hin langvían fékk samastað á teppi hundsins sem virtist mjög annt um hana en síðan í pappakassa í bílskúrnum þar sem reynt er að mata hana á hráum þorski.  Svo virðist sem fuglinn sé máttfarinn af hungri en þetta er ekki í fyrsta sinn sem dauður svartfugl liggur í hrönnum þarna á sandinum ásamt lifandi fugli sem getur sér enga björg veitt.  Fyrir nokkrum árum fann gönguhópur töluvert af bæði dauðum og lifandi svartfugli á sandinum og einn úr hópnum tók nokkrar lifandi langvíur með heim í bílskúr og mataði þær á hrárri loðnu.  Eftir sólarhring höfðu þær braggast ágætlega svo hægt var að sleppa þeim við hafið þar sem þær syntu burt. Vonandi gengur jafn vel með þessa einu langvíu sem dvelur nú á hundateppi í bílskúr fréttaritarans.

Töluvert sást af dauðum fugli sem vargfuglinn var búinn að …
Töluvert sást af dauðum fugli sem vargfuglinn var búinn að kroppa. ljósmynd/Líney Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert