Verður ný vídd í menningarlífinu

Nýlistasafnið, Kling og Bang-galleríið og listamaðurinn Ólafur Elíasson ætla að …
Nýlistasafnið, Kling og Bang-galleríið og listamaðurinn Ólafur Elíasson ætla að koma sér fyrir í þessu húsi við Grandagarð , auk nýs veitingastaðar. mbl.is/Árni Sæberg

„Þarna verður nýr segull í Reykjavík, ný vídd í menningarlífinu, og ég held að þetta geti styrkt og stutt við myndlist og skapandi greinar á margan hátt,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um flutning Nýlistasafnsins, Kling og Bang-gallerís og Ólafs Elíassonar, auk nýs veitingastaðar, í Marshall-húsið við Grandagarð.

Í fyrradag var samþykkt í borgarráði að heimila Reykjavíkurborg að gera samning við HB Granda, eiganda Marshall-hússins, um fimmtán ára leigu og framleigja það síðan áfram til listamannanna og menningarstofnananna.

Grandasvæðið og Örfirisey hafa tekið umtalsverðum breytingum á skömmum tíma. Fjöldi hönnuða og listamanna hefur komið sér fyrir, margir í nágrenni við Sjóminjasafnið og höfuðstöðvar leikjafyrirtækisins CCP; þarna er Tónlistarþróunarmiðstöðin, með aðstöðu fyrir hljómsveitir, Ljósmyndaskólinn sem er dagskóli, og þessi fjölbreytilega menningarstarfsemi hefur færst í forvitnilegu sambýli við sjávarútvegsfyrirtæki og nýsköpunina í Sjávarklasanum norður eftir Grandagarði, allt að listaverki Ólafar Nordal, Þúfu, við höfuðstöðvar HB Granda. En hvers vegna skyldi Reykjavíkurborg hafa farið út í að hafa milligöngu um leigu á Marshall-húsinu, til að leigja það síðan áfram til þeirra sem koma sér þar fyrir?

Tíðindi að Ólafur komi sér fyrir

„Þetta er að frumkvæði þessara listamanna og safna,“ segir Dagur. „HB Grandi lítur ekki á það sem hluta sinnar kjarnastarfsemi að leigja út húsnæði til menningarstarfsemi og því þurfti að koma að borðinu aðili sem væri tilbúinn að leigutryggja þetta; gera HB Granda kleift að ráðast í þær töluvert umfangsmiklu framkvæmdir við húsið sem þarf til. Hlutverk okkar hjá borginni var því annars vegar að tryggja þessa leigusamninga og hins vegar að framleigja til þessarar menningarstarfsemi. Þar með verður þetta að veruleika og við komum út á núlli, fjárhagslega, en fáum stórkostlega spennandi myndlistar- og menningarhús þarna á norðanverðum Grandanum.

Mér finnst mikilvægt að við styðjum við þetta frumkvæði, sem kemur utan frá, og það er hlutverk okkar að vera ljósmóðir í ferlinu.“

Þá segir Dagur að það séu vitaskuld sérstök tíðindi að Ólafur Elíasson sé að færa sig meira yfir til Íslands. Hann hyggst vera með vinnustofu á efstu hæð hússins auk þess að setja upp innsetningar eða sérstök verk í hluta þess, sem verður opinn almenningi og mun án efa draga að gesti. Segja má að verk eftir Ólaf rammi þannig á vissan hátt inn hafnarsvæðið, þar sem hann á hinn flennistóra glerhjúp á Hörpu og ljósaverkið á honum.

Dagur segir að borgaryfirvöld hafi líka haft áhyggjur af því að Nýlistasafnið og Kling og Bang, sem hafa staðið fyrir gríðarlega öflugri starfsemi undanfarin ár, hafi verið í húsnæðishraki. Nú hafi verið fundin kærkomin lausn á því.

Stækkar miðborgarsvæðið

Grasrótarfyrirtæki hafa í auknum mæli komið sér fyrir á Grandanum. Hver hefur verið stefna borgarinnar varðandi uppbyggingu þar?

„Við styðjum við það á þann hátt að á aðalskipulaginu ýttum við út af borðinu öllum hugmyndum um umfangsmikla íbúðarbyggð og hóteluppbyggingu á hafnarsvæðinu á Grandanum. Þar með þróast þetta svæði öðruvísi og það skapar tækifæri fyrir þá sem eru tilbúnir til að hreiðra um sig í aðeins hrárra og minna þróuðu húsnæði, sem eru oft skapandi greinar og listamenn af ýmsu tagi – og það er að gerast.“ Dagur segir líka að með þessari þróun mála á Grandanum stækki miðborgarsvæðið og álagið minnki „á þeim fermetrum í Kvosinni sem eru mest notaðir“, og þessi þróun sé lífræn.

Verbúðirnar gegnt Sjóminjasafninu og höfuðstöðvum CCP hafa verið mjög eftirsóttar og telur Dagur að nú muni eftirspurnin í norðurhluta verbúðalengjunnar aukast og í nærliggjandi götum. Marshall-húsið verði eins konar ankeri á svæðinu. Þannig má segja að miðja Grandasvæðisins færist nú norðar.

„Þegar horft er til þess hvað HB Grandi hefur gert ótrúlega fína aðstöðu fyrir hjólandi starfsfólk, og hvað fyrirtækið hefur gert fyrir umhverfið eftir að því var úthlutað lóðinni fyrir frystigeymsluna Ísbjörninn, þar sem Þúfa Ólafar Nordal er líka orðin að aðdráttarafli í sjálfu sér, þá er ekki hægt að segja annað en að þetta svæði sé að springa út,“ segir Dagur. „Marshall-húsið verður lykilþáttur í því, með lifandi veitingastað og lífi sem smitar út göturnar beggja vegna. En það er líka í þessu mikla návígi við sjávarútveginn sem við stöndum líka vörð um á þessu svæði. Við viljum að hafsækin starfsemi þróist, í Sjávarklasanum er fullt af nýsköpunarfyrirtækjum sem tengjast sjávarútvegi, þar er líka kominn veitingastaður og allt styður þetta hvað við annað.

Marshall-húsið var púsl sem flýtir þróun sem við höfum séð fara af stað og gerir svæðið enn skemmtilegra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert