Ráðuneytið svarar Vigdísi

Ráðuneytið segir það ekki á valdi þess að opinbera umrædd …
Ráðuneytið segir það ekki á valdi þess að opinbera umrædd gögn. mbl.is/Þorkell

Í fjarveru ritara hefur láðst að halda tvær fundargerðir stýrinefndar um samninga við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Virðist sem tilkynningunni sé ætlað að svara málflutningi Vigdísar Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins og formanni fjárlaganefndar, sem segir þó nokkrar blaðsíður, meðal annars fundargerðir, vanta í gögn um stofnun nýju bankanna frá árinu 2009.

Frétt Morgunblaðsins: Mikilvægar fundargerðir eru týndar

„Það er alltaf verið að telja okk­ur trú um að allt hafi farið eðli­lega fram við end­ur­reisn banka­kerf­is­ins en af hverju þarf þá að slá svaka­legri leynd yfir þau gögn, meðal ann­ars mik­il­væg­ar fund­ar­gerðir, sem liggja til grund­vall­ar?“ spurði Vigdís meðal annars.

Vigdís Hauksdóttir sagði málið grafalvarlegt í samtali við Morgunblaðið.
Vigdís Hauksdóttir sagði málið grafalvarlegt í samtali við Morgunblaðið.

Ekki á valdi ráðuneytis að opinbera gögnin

Ástæðu þess að hluti gagnanna er skilgreindur sem trúnaðargögn segir ráðuneytið vera tvíþætta:

Annars vegar hafi þau að geyma viðkvæmar fjárhagsupplýsingar um tilgreinda einstaklinga og lögaðila sem ráðuneytið hafi ekki heimildir að lögum til að gera opinber. Hins vegar fjalli hluti gagnanna um lögskipti sem ráðuneytið sé ekki aðili að, þótt afrit þeirra sé að finna í ráðuneytinu. Í þeim tilvikum hafi verið litið svo á að það sé ekki á ákvörðunarvaldi ráðuneytisins að gera viðkomandi gögn opinber, heldur sé það þeirra sem aðild eiga að þeim.

„Um meðferð og varðveislu trúnaðargagna sem send eru Alþingi gilda ákvæði þingskapalaga. Það er ekki á forræði framkvæmdavaldsins að hlutast til um hvernig Alþingi eða einstakar þingnefndir ákveða að haga aðgangi þingmanna að slíkum gögnum. Í samræmi við það er það á ábyrgð Alþingis hvernig farið er með trúnaðargögn sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þann 10. júní 2015,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

„Sem er vissulega miður“

Segir enn fremur að bent hafi verið á að tvær fundargerðir af fundum stýrinefndar um samninga við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna liggi ekki fyrir.  

„Það er rétt, en eins og áður hefur komið fram hafa þessar fundargerðir ekki fundist. Eftir ítrekaða leit er það niðurstaða ráðuneytisins að skýringin sé sú að láðst hafi að halda fundargerðirnar í fjarveru ritara og þær því ekki til, sem er vissulega miður.“

Tilkynning ráðuneytisins í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert