Tekur viku að stöðva öll skipin

Goðafoss á siglingu út af Gróttu.
Goðafoss á siglingu út af Gróttu. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm skip Eimskipafélagsins munu þurfa að hætta siglingum í kjölfar verkfalls vélstjóra og skipstjórnarmanna, sem boðað er á miðnætti. Þetta staðfestir talsmaður Eimskips, Ólafur William Hand, í samtali við mbl.is.

Brúarfoss og Dettifoss eru nú bæði stödd við Rotterdam í Hollandi, Goðafoss er í Færeyjum og Lagarfoss kemur til Reykjavíkurhafnar nú innan skamms. Þá er Selfoss nýlagður af stað til Nýfundnalands frá Reykjavík. Hjá Samskipum mun verkfallið stöðva för Arnarfells og Helgufells frá landinu.

Ekki er með öllu víst að verkfallið hefjist á miðnætti en staðan í kjaradeilunni er óljós.

„Þetta skýrist um leið og menn setjast aðeins niður og ræða saman í dag. Við erum ánægð með að menn séu að tala saman því það er grunnurinn að lausn málsins,“ segir Ólafur. Þó af verkfalli verði í kvöld munu skipin öll ljúka sínum siglingum áður en þau halda heim á leið.

„Þau stöðva ekki fyrr en í heimahöfn. Á meðan þau eru í siglingu í erlendum höfnum þá halda þau áfram allt þar til þau koma í heimahöfn,“ segir Ólafur og bætir við að því taki um viku að stöðva öll skipin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert