„Ekkert að marka ríkisstjórnina“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar mbl.is/Golli
Kári Stefánsson,forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að það sé ekkert að marka það sem núverandi ríkisstjórn segir um vilja sinn til þess að hlúa að heilbrigðiskerfinu. Þar vísar hann til stefnu stjórnarinnar og efnda hennar varðandi heilbrigðiskerfið. Kári skrifar aðsenda grein í Morgunblaðið í dag.
Landspítali
Landspítali mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
„Það er fátt pínlegra en þegar maður heldur sig hafa gert eitthvað nýtt, skapað eða uppgötvað og kemst svo að því að það var einhver annar búinn að gera þetta fyrir löngu. Þetta hefur komið fyrir mig oftar en svo að tárum taki, kannski vegna þess að ég vinn við að reyna að gera uppgötvanir og stundum tekst það en oft leiðir það til þess að maður fer slóðir sem eru troðnar án þess að maður geri sér grein fyrir því meðan á ferðinni stendur,“ segir  Kári í greininni.
Barna- og unglingageðdeild (BUGL).
Barna- og unglingageðdeild (BUGL).

„Þegar ég hóf undirskriftasöfnun til stuðnings þessari kröfu hélt ég að ég væri frumlegur, að ég hefði komið auga á eitthvað sem hefði farið framhjá öllum öðrum. Það var svo fyrir nokkrum dögum að mér var bent á að krafan sem ég er að biðja landsmenn að skrifa undir er næstum samhljóða yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar. Sú stefna var sett saman sem hluti af samningi ríkisins við lækna og var undirrituð í desember 2014. Ég verð því að viðurkenna að ég var einfaldlega að apa eftir ríkisstjórninni nema ég fylgi fordæmi Newtons og haldi því fram að ég hafi verið fyrri til þótt ég hafi verið seinni til sem yrði að byggjast á því að tíminn sé ekki línulegur heldur hringlaga.

Nú gladdi það mig samt að komast að því að ríkisstjórnin hefði komið endurreisn heilbrigðiskerfisins á stefnuskrá sína þótt það þýddi að ég hefði ekki verið eins frumlegur og ég hélt ég væri. Það gladdi mig hins vegar töluvert minna að komast að raun um að það er ekki hægt að merkja það á gerðum ríkisstjórnarinnar að hún meini nokkurn skapaðan hlut með þessu. Dæmi um muninn á því sem þessi ríkisstjórn segir og gerir þegar kemur að heilbrigðismálum má sækja í gerð fjárlaga fyrir 2016. Undir lokin var tekist á um það hvort það ætti að veita því fé til Landspítalans að það væri hægt að reka hann á svipaðan máta og 2015, ekki bæta hann heldur halda í horfinu. Það var tekist á um það hvort það ætti að reka hann í þeim lamasessi sem hann var búinn að vera í um hríð eða láta honum hnigna enn meira. Það var mat þeirra sem stjórna sjúkrahúsinu að það þyrfti 2,5 milljarða króna í viðbót til þess að ná því markmiði.

Þegar málið kom á borð fjármálaráðherra féllst hann ekki á að bæta við meira en helmingi af upphæðinni. Því var auðvitað haldið fram að það væru ekki til peningur fyrir meiru.

Nokkrum dögum eftir að fjárlög voru samþykkt lét fjármálaráðherra hafa það eftir sér að það yrði 300 milljarða króna afgangur af ríkisfjármálum fyrir árið 2016?

Það er sem sagt ekkert að marka það sem núverandi ríkisstjórn segir um vilja sinn til þess að hlúa að heilbrigðiskerfinu og því miður hefði mátt segja hið sama um margar af þeim ríkisstjórnum sem á undan henni þjónuðu þessu landi.

Það er þess vegna, ágæti Íslendingur, sem ég hvet þig til þess að skrifa undir kröfuna um endurreisn heilbrigðiskerfisins í þeirri von að það sé hægt nota hana sem hring í nef alþingismanna til þess að draga þá í þá átt sem þeir virðast forðast gegn betri vitund,“ segir í grein Kára í Morgunblaðinu í dag.

Alls hafa rúmlega 55 þúsund manns skrifað undir áskorun Kára á vefnum endurreisn.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert