Segja af sér fyrir minni sakir

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, er sögð fara með dylgjur …
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, er sögð fara með dylgjur gagnvart embættismönnum.

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, ættu að skammast sín fyrir dylgjur í garð starfsmanna fjármálaráðuneytisins, að mati Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og fv. fjármálaráðherra. Segir hún stjórnmálamenn hafa sagt af sér fyrir minni sakir en þeirra.

Í ræðu á Alþingi í dag gagnrýndi Oddný ráðherrann og þingkonu Framsóknarflokksins harðlega fyrir framferði sitt gagnvart opinberum embættismönnum undanfarið. Eygló hafi með því að senda starfsmönnum fjármálaráðuneytisins orkustykki á dögunum reynt að láta menn halda að það væri leti þeirra um að kenna að húsnæðisfrumvörp væru ekki komin fram.

Embættismenn ráðuneytisins hafi ekki getað varið sig fyrir því sem Oddný kallaði lágkúrulega árás. Ráðherrann hafi vitað það mætavel en hann hafi ekki þorað að gagnrýna fjármálaráðherra sjálfan og kosið í staðinn að ráðast að varnarlausum starfsmönnum ráðuneytisins.

Þá benti Oddný á orð Vigdísar í útvarpsþætti á Bylgjunni í gærmorgun þess efnis að hún teldi að embættismenn fjármálaráðuneytisins hafi framið glæp í formi skjalafals vegna þess að ákveðin skjöl sem vörðuðu endurreisn bankakerfisins væru ekki aðgengileg. Oddný benti hins vegar á að það væri þingið sem réði meðferð slíkra skjala, ekki embættismenn ráðuneytisins.

Sakaði Oddný Vigdísi um að fara með dylgjur og notfæra sér tortryggni sem enn ríkti í þjóðfélaginu til þess að þyrla upp ryki þar sem hún þyrði ekki að ráðast á þá fjármálaráðherra sem beri ábyrgðina.

„Mér finnst framkoma þeirra beggja gagnvart starfsmönnum fjármálaráðuneytisins óásættanleg auk þess sem hún er lítilmannleg. Það eru ráðherrar sem fara með ábyrgð og þangað á að beina spjótunum en ekki að embættismönnum sem geta ekki varið sig fyrir slíkum rógi og árásum. Mér finnst að hæstvirtur ráðherra og háttvirtur þingmaður ættu að skammast sín og í öðrum lýðræðislöndum segja menn af sér fyrir minni sakir,“ sagði Oddný.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert