Á bólakaf við Reynisfjöru

Konan nær að standa í fyrstu eftir að aldan skellur …
Konan nær að standa í fyrstu eftir að aldan skellur á henni en veifar eftir aðstoð. Ljósmynd/ Kristján Guðmundsson

Meðfylgjandi myndum náði Kristján Guðmundsson við Reynisfjöru þann 1. febrúar síðastliðinn. Á þeim sést erlendur ferðamaður lenda í sjálfheldu eftir að hafa misreiknað kraft hafsins. Kristján birti myndirnar á Facebook hópnum Bakland Ferðaþjónustunnar. Segir hann nokkra ferðamenn hafa lent í sjálfheldu í fjörunni þennan dag og að konan á myndunum hafi ekki verið sú sem lenti í mestri hættu. 

Segir hann konuna hafa misreiknað ölduna sem kom þrátt fyrir „fyrirlestur“ um hættuna. 

Nokkrum andartökum seinna fóru allavega tveir aðrir í "þvottavélina" þrátt fyrir að vera vitni að þessu atviki sem ég myndaði,“ skrifar Kristján.

Í samtali við mbl.is segir Kristján, sem er bílstjóri hjá Snæland Grímsson, daginn hafa verið óvenjuslæman. „Við fréttum af einum ferðamanni sem var bjargað úr volki við ströndina stuttu áður en við komum,“ segir Kristján og bætir við að um alvarlegt, viðvarandi vandamál sé að ræða.

Aldan náði konunni niður og er mesta mildi að hún …
Aldan náði konunni niður og er mesta mildi að hún hafi ekki verið rifin á haf út. Ljósmynd/Kristján Guðmundsson

Sagðist hann hafa verið með 20 manna hóp í fjörunni og að vanda hafi verið brýnt fyrir ferðamönnunum að gæta að sér. Segir hann erfitt að passa upp á fólk í fjörunni, fólk gleymi sér í því að taka myndir en svo komi ein og ein alda sem er stærri. 

„Það voru fjórir eða fimm sem blotnuðu almennilega þennan dag,“ segir Kristján. „Og þá erum við ekki að tala um að blotna í fæturna heldur mitti eða meira.“

Kristján hefur verið gagnrýndur á fyrrnefndum Facebook hóp fyrir að hafa ekki aðstoðað konuna heldur fest hana á filmu. Kristján segir myndirnar hinsvegar teknar með aðdráttarlinsu. Hann hafi farið með leiðsögumanninum að taka myndir og hjálpa til við að halda utan um hópinn þar sem brimið var svo mikið. Hann hafi verið ofarlega í fjörunni og vestan við konuna, um 200 metra frá en leiðsögumenn hafi verið nálægt að líta eftir ferðafólkinu og fljótir á vettvang.

Kristján náði fleiri myndum sem sýna ferðakonuna í háska og hvernig henni var komið til bjargar. Þær má sjá með því að smella hér.

Öldruð kona drukknaði við Reynisfjöru árið 2007 og síðan þá hafa fjölmargir lent í lífsháska í fjörunni.

Frétt mbl.is: Brimaldan sogaði konuna á haf út

Ljósmynd/Kristján Guðmundsson

 Uppfært: 22:18

Upprunalega stóð að Kristján hefði setið í bíl og tekið myndirnar en sú staðhæfing var á misskilningi byggð og hefur nú verið leiðrétt í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert