Þrír mánuðir fyrir ofbeldi gegn ófrískri konu

Maðurinn beitti konuna ofbeldi á heimili þeirra. Myndin er sviðsett …
Maðurinn beitti konuna ofbeldi á heimili þeirra. Myndin er sviðsett og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/ÞÖK

Karlmaður var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Vesturlands fyrir heimilisofbeldi gegn sambýliskonu sinni. Konan var ófrísk í fyrra skiptið sem hann beitti hana ofbeldi samkvæmt ákæru en í seinn skiptið réðist hann á hana fyrir framan börn þeirra.

Konan var gengin þrjátíu vikur með barni þegar maðurinn sneri hana niður í gólfið, sló hana með flötum lófa í andlitið, hélt henni niðri með því að liggja á hnjánum ofan á mjöðm hennar og ýtti henni eða sló utan í skáp. Hún hlaut bólgur og eymsli af árásinni, meðal annars ofarlega í kvið, og óttaðist hún um heilbrigði barnsins sem hún bar undir belti, samkvæmt ákærunni.

Í seinna brotinu sem maðurinn var ákærður fyrir réðist hann á konuna fyrir framan börn þeirra. Tók hann um háls sambýliskonu sinnar aftan frá og sneri hana niður í gólfið. Þá tók hann hana kvekataki, sló hana í andlitið, dró hana eftir gólfinu á hárinu og steig á háls hennar. Maðurinn er meðal annars ákærður fyrir brot á barnaverndarlögum vegna þess brots.

Hann játaði brotin en ákvörðun refsingar var það talið til þyngingar að brotin hafi beinst að sambýliskonu hans á heimili þeirra, annars vegar þegar hún var barnshafandi og hins vegar í viðurvist ungra barna þeirra.

Refsing hans var talin hæfileg þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá var hann dæmdur til að greiða konunni 400.000 krónur í skaðabætur og 100.000 krónur til hvors barns sem varð vitni að árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert