Vonskuveðri spáð á morgun

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Veðurstofan varar við vonskuveðri síðdegis á morgun. Þótt hláni á láglendi sunnantil á landinu mun áfram snjóa á fjallvegum og má búast við að þeir verði illfærir síðdegis á morgun. Um landið norðanvert mun ekki hlána og þar verður snjókoma og skafrenningur.

„Í dag má búast við strekkings austan- og norðaustanátt, en mun hægari vindur norðaustantil. Ofankoma allvíða um landið sunnanvert, en stöku él fyrir norðan.

Á morgun hvessir talsvert og gera spár ráð fyrir austan hvassviðri eða stormi síðdegis, fyrst allra syðst. Þessu fylgir snjókoma en fer síðan yfir í slyddu og jafnvel rigningu við suðurströndina. Lengst af frost en hlánar sunnantil um tíma annað kvöld.

Áfram hvöss norðaustanátt norðvestantil á föstudag og ofankoma, en annars mun hægari vindur. Síðan er útlit fyrir fremur kalda norðlæga átt um og eftir helgi með éljum fyrir norðan, en lengst af þurrt syðra,“ segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næsta sólarhring:

Vaxandi austlæg átt með morgninum, 10-18 eftir hádegi, en hægari norðaustan til. Snjókoma á köflum um landið sunnanvert er líður á morguninn, en lítilsháttar él fyrir norðan. Vaxandi austan og norðaustanátt á morgun, 15-25 síðdegis, hvassast við Suðurströndina, en norðvestan til um kvöldið. Mun hægari suðvestan átt suðvestan til seint annað kvöld.

Snjókoma, en slydda eða rigning um landið sunnanvert annað kvöld. Frost 2 til 12 stig, en hlánar allra syðst seinnipartinn. Heldur hlýrra syðst síðdegis á morgun.

Á fimmtudag:

Gengur í austan hvassviðri eða storm með snjókomu, jafnvel slyddu eða rigningu syðst. Hægari vindur NA-til framan af degi. Frost 0 til 10 stig, en frostlaust með S-ströndinni.

Á föstudag:
Áfram hvöss norðaustanátt með snjókomu NV-til. Annars staðar snýst í suðaustlæga átt 5-13 m/s og víða úrkomulítið, en snjókoma með köflum um landið SA-vert. Frost 0 til 8 stig.

Á laugardag:
Norðaustanátt með éljum N-lands, hvassast og úrkomumest á Vestfjörðum, snjókoma eða slydda SA-til, en annars úrkomulítið. Dregur heldur úr frosti.

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag:
Norðaustlæg átt með snjókomu eða éljum um landið N- og A-vert, en að mestu bjart S-lands. Kólnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert