Allar skuldbindingar afturkræfar

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að TiSA-samningurinn feli ekki í sér neinar skuldbindingar um að einkavæða þjónustu og að allar skuldbindingar séu afturkræfar. TiSA muni innihalda ákvæði um úrlausn deilumála líkt og sé hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni og hafi reynst smáríkjum vel.  

„Þar munu ríki takast á, ekki fyrirtæki,“ sagði Gunnar Bragi í sérstakri umræðu um TiSA-samninginn á Alþingi í dag. 

Feli í sér fullveldisafsal

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, var málshefjandi. Hann segir að ekki sé um hefðbundnar viðskiptaviðræður sé að ræða heldur viðræður sem feli í sér fullveldisafsal og að samningarnir séu óafturkræfir. „Ef að ríki sem hefur undirgengist tiltekin ákvæði, dregur til baka þá eiga þau á hættu að vera skaðabótaskyld,“ sagði Ögmundur. 

Hann sagði ennfremur, að úrskurðarvald væri fært frá dómstólum undir gerðardóma. „Fært frá lýðræðinu til fjármagnsins,“ sagði Ögmundur ennfremur. Hann telur eðlilegast að Ísland segði sig frá þessum samningum. „Það er siðlaust að við skulum taka þátt í þessu samsæri gegn fátæku fólki í heiminum.“

Engar reglur um bótaskyldu ríkja

Gunnar Bragi tók undir orð þingmanna sem vildu fá ítarlegri umræðu um málið á Alþingi og hvatti þingmenn til að gleypa ekki allt hrátt sem sagt hafi verið um málið. 

„Samningurinn kallar ekki á neinar breytingar á opinberri þjónustu, hverju nafni sem hún nefnist. Hún er undanþegin almennt, og til að vera með belti og axlarbönd, þá er sérstaklega tekið fram í tilboði Íslands að svo sé. Samningurinn felur ekki í sér neinar skuldbindingar um að einkavæða þjónustu. Það sem meira er, að ríkið getur fært einkavædda þjónustu aftur í opinberann rekstur kjósi það svo,“ sagði Gunnar Bragi.

Þá sagði Gunnar Bragi, að engar reglur væru í Gats-reglum (gildandi samningum) og myndu ekki vera í TiSA um bótaskyldu ríkja kjósi þau að taka þjónustu á ný undir opinberann rekstur.

„Allar skuldbindingar eru afturkræfar. TiSA mun innihalda ákvæði um úrlausn deilumála líkt og er hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Og hafa reynst smáríkjum vel. Þar munu ríki takast á, ekki fyrirtæki,“ sagði ráðherra og bætti við að samningurinn myndi ekki takmarka rétt löggjafans til að setja löggjöf á þeim sviðum sem samningurinn næði til.

„Það verður á valdi sérhvers ríkis að setja reglur um réttarstöðu erlendra þjónustuveitenda og svo framvegis,“ sagði Gunnar Bragi ennfremur.

Ekki verið að fela neitt

Þá sagðist Gunnar Bragi ekki kannast við það að íslensk stjórnvöld hefðu verið beðin um að fela einhverja hluti í viðræðunum. Þá væri rangt að í desemberumræðunum hefðu íslensk stjórnvöld beitt sig fyrir því að ekki væri hægt að greina á milli orku. Þá sagði hann að skjöl sem uppljóstrunarsíðan WikiLeaks hefði vísað til í desember, hefðu verið birt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins í mars í fyrra. 

„Það sem við höfum lagt áherslu á er að íslenskir sérfræðingar á sviði orkurannsókna og orkuþjónustu geti veitt slíka þjónustu erlendis. Það er ekkert í þessu þar sem við erum að leggja til að menn geti ekki greint á milli orku eða notað orku sem þeir kjósa.“

Loks sagði ráðherra að hann væri því sammála að þörf væri á því að búa til vettvang til að ræða málið betur á Alþingi. 

Ítarlega er fjallað um Tisa-viðræðurnar á vef utanríkisráðuneytisins

Umræðan á vef Alþingis í dag

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert