Hafna ásökunum ritstjóra DV

Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, segir ummæli Eggerts Skúlasonar ritstjóra DV í leiðara blaðsins 2.febrúar um meint vinnubrögð á fréttastofu RÚV ekki standast skoðun.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá RÚV þar sem segir að í leiðaranum hafi Eggert gefið í skyn að lögreglustjórinn í Reykjavík hafi verið blekktur í viðtal við fréttastofu RÚV. Í yfirlýsingunni segir að ásakanir ritstjórans snúist um viðtal við lögreglustjórann í Reykjavík sem spilað var í hádegisfréttum laugardaginn 22. nóvember 2014 en viðtalið hafi verið tekið upp í hljóðstofu Ríkisútvarpsins í gegnum síma.

„Öll hljóðrituð viðtöl sem fréttastofa RÚV tekur þurfa að fara fram í gegnum hljóðstofu (stúdíó með tæknimanni) því ekki er til búnaður á fréttastofunni sem gerir fréttamönnum kleift að hljóðrita símtöl í borðsíma og fréttareglur RÚV heimila ekki notkun á hljóðupptöku úr farsíma sem viðmælanda er ekki kunnugt um. Þá hefur það aldrei tíðkast, jafnvel þó að viðmælanda væri kunnugt um upptöku á farsíma og samþykki lægi fyrir,“ segir í yfirlýsingunni. Þar er jafnframt tekið fram að ljósvakamiðill viðhafi önnur vinnubrögð en t.d. dagblöð hvað þetta varðar því upptakan þurfi að vera úsendingarhæf í útvarpi eða sjónvarpi og því sé hljóðver alltaf notað.

„Í þessu umrædda viðtali hafði fréttamaðurinn rætt við lögreglustjórann í farsíma sinn stuttu áður og þegar samþykki fyrir viðtali lá fyrir fór fréttamaðurinn í hljóðstofu og þaðan var hringt í lögreglustjórann, venju samkvæmt. Upptakan er til í gögnum fréttastofunnar í heild sinni, rúmar 23 mínútur. Á upptökunni segir fréttamaðurinn í lok viðtals að nú ætli hann að hlusta á viðtalið og vera í sambandi enda hafði lögreglustjórinn sett það sem skilyrði fyrir veitingu viðtals að hún fengi að vita hvaða hlutar þess yrðu notaðir í fréttina. Áður en fréttin var birt hringdi fréttamaðurinn í lögreglustjórann og las upp handritið.“

Í yfirlýsingunni segir að sú ályktun ritstjóra að lögreglustjórinn hafi ekki vitað að hún væri í viðtali eða að hljóðupptaka væri í gangi sé því röng. Það staðfesti upptakan sjálf. Þá hafi fréttastofu aldrei borist kvörtun eða athugasemd frá lögreglustjóranum sjálfum, hvorki fyrir 14 mánuðum þegar viðtalið var birt né núna eftir að ritstjóri DV steig fram á ritvöllinn með sína túlkun á samskiptum fréttastofunnar og lögreglustjórans. Fréttastofa hafi boðið lögreglustjóranum að koma og hlusta á upptökuna og það boð stendur.

„Með vísan í ofangreinda málavexti er fráleitt að halda því fram að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi á nokkurn hátt beitt blekkingum eða viðhaft óeðlileg vinnubrögð. Slíkar ásakanir standast einfaldlega ekki skoðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert