Köfunarbúnaður rannsakaður

Silfra er einn besti köfunarstaður á Íslandi og af mörgum …
Silfra er einn besti köfunarstaður á Íslandi og af mörgum talinn vera á heimsmælikvarða. Ekki er leyft að kafa einsamall, stunda hellaköfun eða fara dýpra en 18 metra.

Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á banaslysi sem varð í síðustu viku þegar 26 ára kínversk kona lést eftir köfunarslys í Silfru á Þingvöllum er í fullum gangi. Verið er að rannsaka köfunarbúnað konunnar auk þess sem niðurstöðu krufningar er beðið.

Slysið varð 26. janúar sl. Kon­an, sem var búsett í Bandaríkjunum, hafði verið ásamt manni sín­um á veg­um ferðaþjón­ustu­fyri­rtæk­is að kafa í gjánni. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um lög­regl­unn­ar á Suður­landi sökk kon­an niður á um 30 metra dýpi og var henni eft­ir nokk­urn tíma komið upp á yf­ir­borðið meðvit­und­ar­lausri. Lög­reglu barst til­kynn­ing um slysið klukk­an 12:42 og var kallað eft­ir aðstoð þyrlu Land­helg­is­gæslu Íslands sem flutti kon­una á Reykja­vík­ur­flug­völl þar sem sjúkra­bíll beið og flutti hana á gjör­gæslu­deild Land­spít­al­ans. Þar var hún úr­sk­urðuð lát­in í dag.

Þorgrím­ur Óli Sig­urðsson, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn á Suður­landi, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku, að hluti köf­un­ar­búnaðar kon­unn­ar hefði verið eft­ir á botni Silfru og komu sér­sveit­ar­menn frá rík­is­lög­reglu­stjóra, sér­fræðing­ar Land­helg­is­gæslu og köf­un­ar­sveit slökkviliðs höfuðborg­ar­svæðis­ins á staðinn til að kafa eft­ir hon­um.

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú búnaðinn, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi. Þá hefur krufning farið fram og nú er beðið eftir skýrslu þar sem dánarorsök verði staðfest. Ekki liggur fyrir hvenær niðurstaða muni liggja fyrir. Það er hins vegar ljóst að niðurstaða muni ekki liggja fyrir í þessari viku. 

Skýrslutökum lauk í síðustu viku. 

Köf­un­ar­slys í Silfru hafa verið al­geng síðustu ár og oft hef­ur mátt litlu muna, stund­um hárs­breidd á milli lífs og dauða. Er þetta þriðja bana­slysið þar frá ár­inu 2010, en í des­em­ber 2012 lést þar Íslend­ing­ur og árið 2010 lést er­lend­ur ferðamaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert