Veðrið verður verst milli 18 og 20

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Það er farið að snjóa víða en búast má við því að það fari að hvessa uppúr hádeginu á Suður- og Vesturlandi með rigningu og slyddu. Veðrið verður verst á höfuðborgarsvæðinu á milli 18 og 20 í kvöld en fer að ganga niður upp úr níu. Spáin er slæm fyrir Vestfirði allt fram á annað kvöld.

Óstöðuleiki hefur verið í snjóþekjunni og nokkur snjóflóð féllu á norðanverðum Vestfjörðum á mánudag og þriðjudag. Veðurspá gerir ráð fyrir töluverðri snjókomu á fimmtudag og föstudag í sterkum austlægum eða norðaustlægum áttum. Búast má við að þá geti snjóflóðahætta aukist hratt til fjalla á norðanverðum Vestfjörðum.

Snjóruðningsmenn í Reykjavík voru farnir út um fjögur leytið í nótt til þess að hálkuverja og koma í veg fyrir að fólk lendi í vandræðum þegar það fer af stað út í morgunumferðina. Samkvæmt upplýsingum frá vaktstjóra í snjóruðningsdeild borgarinnar eru allir bílar úti og fylgist deildin grannt með gangi mála. Unnið er allan sólarhringinn ef þess þarf til þess að halda götum borgarinnar færum.

Vegna óveðurs má búast við því að í dag þurfi að grípa til lokana á vegum á Suðvesturlandi. Líkur eru á því að um og uppúr hádegi verði vegum lokað yfir Hellisheiði, um Þrengsli og á Mosfellsheiði.

Ólíklegt er að unnt verði að beina umferð um Suðurstrandarveg á meðan lokanir vara. Þá er líklegt að einnig þurfi að loka Vesturlandsvegi um Kjalarnes, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Skil nálgast landið úr suðri með vaxandi austanátt og snjókomu, en þeim fylgir stormur eða rok og talsverð eða mikil úrkoma. Skilin fara norður yfir landið seinni partinn og gengur veðrið niður suðvestanlands í kvöld, suðaustan til aðra nótt, en ekki fyrr en eftir hádegi á morgun í öðrum landshlutum.

Það er verið að hálkuverja götur borgarinnar en spáin er …
Það er verið að hálkuverja götur borgarinnar en spáin er mjög slæm fyrir allt landið þegar líða tekur á daginn mbl.is/Golli

Að sögn vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands virðist spáin vera að ganga eftir en þetta er líklega dýpsta lægðin sem hefur komið til landsins það sem af er ári.

Það fer að snjóa norðanlands síðdegis og þar verður slæmt veður áfram fram á nótt. Eins er spáð mikilli snjókomu á Suðausturlandi og Austfjörðum og má búast við því að færð spillist víða. Veðrið gengur niður á morgun alls staðar nema á Vestfjörðum en þar verður stormur allt fram á kvöld á morgun, föstudag.

Það kólnar víða í kvöld sunnan og vestanlands og má búast við frosti í nótt og að það verði við frostmark á morgun. 

Óveður á þessum degi ekkert nýtt af nálinni

„Í dag gengur í austanstorm eða -rok með snjókomu eða slyddu, en rigningu syðst. Spáð er áframhaldandi vetrarveðri næstu dag og heldur kólnandi veðri. Þennan dag árið 1968 gerið mikið fárviðri á landinu. Veðrið varð verst á Vestfjörðum og þar fórust tveir breskir togarar og einn vélbátur og með þeim sjö menn. Fjárhús og skúrar fuku, þök skemmdust og rúður brotnuðu. Í veðurofsanum urðu einnig gríðarlegar rafmagns- og símatruflanir,“ segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næsta sólarhring:

Austan 10-18 m/s og dálítil snjókoma sunnan til, hvassast við ströndina, en úrkomulítið norðan og austanlands. Bætir í vind og ofankomu í dag, 18-28 m/s síðdegis, hvassast sunnan- og vestan til og víða talsverð snjókoma, en slydda eða rigning syðst. Mikil úrkoma suðaustan lands í kvöld og nótt. Snýst í suðaustan 10-15 með slydduéljum suðvestantil með kvöldinu. Suðaustan 8-13 og og dálítil él á morgun, en norðaustan 18-25 og snjókoma á Vestfjörðum fram undir kvöld. Hiti 0 til 5 stig sunnanlands, en frost annars 1 til 10 stig, mest í innsveitum.

Veðrið versnar mjög á Hellisheiði um hádegi

Lægð sem dýpkar ört suður af landinu mun valda ofanhríð og stormi eftir hádegi á dag, segir á vef Vegagerðarinnar.  Fyrst á á  Hellisheiði frá því um og upp úr hádegi og um miðjan dag almennt um sunnanvert landið. 

Austan 18-25 m/s og reiknað með snörpum byljum s.s. undir Eyjafjöllum, í Öræfum og á Kjalarnesi.  Hætt er við að mjög blint verði.  Síðdegis blotar á láglendi og þá tekur við flughálka á vegum. Skil lægðarinnar er síðan spáð norður yfir landið annað kvöld.

Éljagangur er víða um suðvestanvert landið. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og Suðurnesjum. Það er hálka bæði á Hellisheiði og í Þrengslum, og skafrenningur. Snjóþekja og hálkublettir eru á Hringveginum á Suðurlandi en á öðrum vegum á Suðurlandi er víða hálka. Þæfingur er á Suðurstrandavegi.

Hálka og snjóþekja er allvíða á Vesturlandi, ekki síst á Snæfellsnesi og á fjallvegum. Eins er hálka á Vestfjörðum, víðast hvar, og sums staðar skafrenningur á heiðum.

Hálka er á flestum vegum á Norðurlandi og sums staðar éljagangur.

Hálka er á flestum aðalleiðum á Austurlandi en annars víða snjóþekja, einkum á sveitavegum.

Hálka og snjóþekja er með suðausturströndinni en þungfært er á Mýrdalssandi og ófært á Reynisfjalli og á Sólheimasandi.

Snjókoman breytist í rigningu og slyddu um hádegi
Snjókoman breytist í rigningu og slyddu um hádegi mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert