400 þúsund fyrir 10 daga einangrun

Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur
Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mbl.is

Íslenska ríkið var í dag dæmt til að greiða karlmanni á fertugsaldri 400 þúsund krónur í skaðabætur fyrir gæsluvarðhalds sem hann var látinn sæta í tíu daga í desember árið 2012. Var maðurinn einn fjögurra sem var handtekinn í máli sem tengdist refsiverðri háttsemi í tengslum við fjárhættuspil. Á gæsluvarðhaldstímanum var maðurinn úrskurðaður í einangrun allan varðhaldstímann.

Í tengslum við rannsókn lögreglu á starfsemi áhugamannafélags sem talið var stunda fjárhættuspil var maðurinn ásamt þremur öðrum handtekinn í aðgerðum lögreglu. Eftir rannsókn var ákveðið að ákæra manninn ekki, en að lokum hlutu hin þrjú sem voru ákærð dóma í málinu.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að aðgerðir lögreglu hafi verið í samræmi við eðli, umfang og alvarleika þess ætlaða brots sem til rannsóknar hafi verið, en rökstuddur grunur var um refsiverða háttsemi hjá félaginu. Fóru miklir fjármunir frá félaginu í gegnum reikninga viðkomandi og þá var hann meðstjórnandi í því. Segir í dómnum að meðalhófs hafi verið gætt í hvívetna í öllum aðgerðum lögreglu og lengd gæsluvarðhaldsins skýrst af umfangi málsins. 

Sú staðreynd að stefnandi var án atvinnu á sama tíma og verulegir fjármunir runnu inn á reikning hans frá áhugamannafélaginu P&P, staða hans sem meðstjórnanda í áhugamannafélaginu, virk þátttaka hans í félaginu á árunum 2010 og 2011, sem og undandráttur á svörum við skýrslugjöf gaf lögreglu fullt tilefni til að rannsaka frekar atriði er snéru að stefnanda og hugsanlegum refsiverðum verknaði af hans hálfu,“ segir í dómnum.

Í þessu ljósi telur dómurinn að stefnandi hafi sjálfur stuðlað að því að gæsluvarðhalds var krafist. Þó kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið efni til að halda honum í gæsluvarðhaldi síðustu þrjá dagana. Hafi hann því setið að ósekju í gæsluvarðhaldi þann tíma.

Voru manninum dæmdar 400 þúsund krónur í skaðabætur og var fallist á gjafsóknarkostnað hans upp á 600 þúsund krónur, en þar með talin eru málflutningsþóknun lögmanns hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert