Engin snjóflóð fallið í byggð

Mest hefur snjóað á Patreksfirði og á Tálknafirði.
Mest hefur snjóað á Patreksfirði og á Tálknafirði. © Mats Wibe Lund

„Við afléttum þessu ekki fyrr en veðrið er gengið niður, það verður ekki gert fyrr en um eða upp úr hádeginu. Menn eru búnir að skoða sig um og það hafa ekki fallið flóð ofan þessara svæða sem við höfum verið að hafa áhyggjur af í byggðinni,“ segir Tómas Jóhannesson hjá snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands.

Enn er í gildi hættustig vegna snjóflóða á Patreksfirði og óvissustig  vegna snjóflóða á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum. Tómas segir að flóð hafi fallið á vegi í nágrenninu. Þar má nefna veg á Skarðsströnd á innanverðu Snæfellsnesi, veg nærri sorpvinnslustöðinni Funa á Ísafirði og þá lenti flóð á grjóthraunsþili við Hvalnesskriður.

Sex hús voru rýmd í gær, öll á Patreksfirði. „Við höfum verið að fylgjast með þeim stöðum þar sem snjóflóðahætta kemur oftast upp í byggðinni á Vestfjörðum og það hafa ekki fallið flóð á neinum þeirra staða þar sem menn hafa séð ennþá,“ segir Tómas.

Frétt mbl.is: Ekki hægt að moka vegna veðurs

Mest hefur snjóað á Patreksfirði og á Tálknafirði. „Það hefur snjóað mjög mikið á sunnanverðum Vestfjörðunum, úrkoman hún hefur náð um 50 mm á Patreksfirði en minna annars staðar. Úrkoman er mun minni á norðanverðum fjörðunum,“ bætir hann við. Gert er ráð fyrir áframhaldandi snjókomi og skafrenningi á Vestfjörðum frameftir degi og mun veðrinu ekki slota fyrr en síðdegis.

Athugasemd veðurfræðings:

Austanstormur eða -rok og talsverð eða mikil úrkoma á norðan- og austanverðu landinu framan af morgni, en gengur síðan niður að mestu, þó ekki norðvestanlands fyrr en í kvöld.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn:

Austan 20-28 m/s N- og A-til, hvassast á annesjum og snjókoma, en sunnan og suðaustan 8-13 og él S-til. Sunnan og suðustan 8-15 og víða él í dag, en norðaustan 20-28 og snjókoma á Vestfjörðum til kvölds. Bætir heldur í vind og úrkomu S- og A-til með kvöldinu. Austan og norðaustan 8-13 og dálítil él á morgun, en 13-18 á Vestfjörðum. Hiti 0 til 5 stig S-lands, en frost annars 0 til 5 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert