Funduðu vegna „sprungins“ skóla

Á næsta ári er reiknað með um 910 nemendum í …
Á næsta ári er reiknað með um 910 nemendum í Hraunvallaskóla. Mynd/Aðsend

Stjórn foreldrafélags Hraunvallaskóla í Hafnarfirði fundaði með skólastjórnendum, fulltrúum bæjaryfirvalda og foreldrum í gærkvöldi um stöðu skóla barnanna í hverfinu.

Skólinn er fyrir löngu sprunginn. Byggingin er hönnuð fyrir 750 nemendur og  síðustu ár hafa miklar breytingar verið gerðar á húsnæði skólans vegna fjölgunar nemenda. Í dag rúmar skólinn ágætlega 860 nemendur en næsta vetur er gert ráð fyrir um 910 nemendum.

Stefnt er að því að fyrsti áfangi í nýjum skóla, Skarðshlíðarskóla, verði tekinn í notkun haustið 2017 og verður skólinn fjármagnaður með sölu lóða í Skarðshlíð. Þangað til verða nemendur og starfsfólk Hraunvallaskóla að þreyja þorrann og meðal annars verður nemendum komið fyrir í fjórum leikskólastofum, en Hraunvallaskóli er blanda af grunn- og leikskóla. Yfirstjórnin er aðskilin og er Lars Jóhann Imsland Hilmarsson skólastjóri grunnskólans.

Eins og lítið sveitarfélag úti á landi

Lars Jóhann segir að fundurinn í gærkvöldi hafi verið málefnalegur og góður og mætingin mjög góð þrátt fyrir slæmt veður. Hann fagnar því að ráðast eigi í byggingu nýs skóla í Skarðshlíð og segir áríðandi fyrir Hraunvallaskóla að stemma stigu við fjölgun nemenda þannig að hægt verði að ná stöðugleika í starfið og vaxtarverkirnir hverfi.

Hann bætir við að tekið hafi verið eitt ár í einu í Hraunvallaskóla við að finna lausnir á húsnæðisvandanum. „Það er búið að gera úrbætur á húsnæðinu þannig að það getur tekið við fleiri nemendum. Þetta eru úrbætur sem nýtast til framtíðar,“ segir Lars og bætir við að ágætlega fari um nemendur í skólanum. „En auðvitað er þetta orðinn mikill fjöldi sem er í þessu húsi dagsdaglega. Þegar allir eru mættir eru hérna um 1.200 manns í húsinu. Þetta er stórt samfélag og er eiginlega eins og lítið sveitarfélag úti á landi.“ 

Skólastjóri Hraunvallaskóla á
Skólastjóri Hraunvallaskóla á "sjálfu" ásamt nemendum 7. bekkjar. Mynd/Aðsend

Þjóna tveimur skólahverfum

Að sögn Lars hafa foreldrar verið að kalla eftir því að nýr skóli komi í hverfið. „Við erum að þjóna tveimur skólahverfum eins og staðan er í dag,“ segir hann og á við Vallahverfið og Velli 6, sem eru hluti af Skarðshlíðarhverfinu. „Fyrir utan það, þá er mikið barnalán á Völlunum og samfélagið er mjög ungt hérna. Hlutfall fólks yfir sextugt er mjög lágt í hverfinu.“

Þarf að grípa til aðgerða

Eva Dís Þórðardóttir er í foreldrafélagi Hraunvallaskóla. Hún er ánægð með samtalið sem átti sér stað á fundinum í gærkvöldi og segir það hafa verið markmið hjá félaginu að upplýsa foreldra strax um áform bæjaryfirvalda í skólamálum á svæðinu. „Þetta er mál sem allir vita að er mjög brýnt. Það þarf að grípa til aðgerða og það ríkir mikill stuðningur á öllum stöðum hvað það varðar,“ segir Eva Dís.

„Skólinn er sprunginn, það vita það allir sem horfa á nemendafjöldann miðað við aðra skóla. En þetta er eitt af nýjustu hverfunum á höfuðborgarsvæðinu og í nýjum hverfum er hlutfall barna alltaf meira. Núna er ákveðið hámark að nást varðandi fjölda barna.“

Aukinn fjöldi getur haft áhrif á börnin

Spurð út í ástandið í Hraunvallaskóla segir hún foreldra hafa áhyggjur af því að aukinn fjöldi nemenda hafi áhrif á börnin, bæði andlega og varðandi námið. „Við erum líka sammála um að skólayfirvöld hafi náð á ótrúlegan hátt að láta þetta ganga upp,“ segir Eva Dís.

Á fundinum í gær lögðu foreldrar áherslu á að skólayfirvöld fengju aukið fjármagn til að geta „þraukað“ næsta árið. Það þyrfti að skila sér í fleiri stöðugildum, bæði stjórnenda og kennara.

Hættu við Hamranesskóla

Aðspurð segir Eva Dís að bæjaryfirvöld hafi staðið sig vel í skólamálum undanfarið. Sjálf sat hún í starfshópi sem bærinn skipaði um hvort stofna ætti nýjan skóla. Hann skilaði niðurstöðu sinni í desember. „Mér fannst vera mikill skilningur á þessum málum. Ég held að allir geri sér grein fyrir stöðu sveitarfélagsins og stöðu markaðarins. Áætlanir voru í gangi í maí 2008 um að byggja Hamranesskóla á Völlunum en þá kom hrunið. Núna er svæðið í Skarðshlíð tilbúið með götum og ljósastaurum, þannig að þetta er hægt og rólega að fara í gang.“ 

Nemendur í Hraunvallaskóla.
Nemendur í Hraunvallaskóla. Mynd/Aðsend

Skarðshlíðarskóli á „mjög góðum“ stað

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður fræðsluráðs, sótti fund foreldrafélagsins og segir að um frábært frumkvæði félagsins hafi verið að ræða.

„Við lýstum því hvað væri framundan í skólamálum í þessu hverfi, sem er ört vaxandi. Fræðsluyfirvöld munu setja þetta hverfi í algjöran forgang,“ segir Rósa en starfshópur hefur verið skipaður vegna þess.  

Hún segir að Skarðshlíðarskóli verði byggður í áföngum og að staðsetningu skólans hafi verið breytt frá upphaflegri áætlun. Hann verði núna á „mjög góðum“ stað á milli Vallahverfis og Skarðshlíðarhverfis.

Áhersla á tónlistarkennslu

Lögð verður meiri áhersla á tónlistarkennslu í nýja skólanum og munu kennarar úr Tónlistarskóla Hafnarfjarðar hjálpa til við þá útfærslu. Foreldar á svæðinu geta því valið úr tveimur skólum með mismunandi áherslur.

Að sögn Rósu verður Skarðshlíðarskóli bæði grunn- og leikskóli en fyrst um sinn verður hann byggður upp sem grunnskóli. „Það er orðið löngu tímabært að gera ráðstafanir í hverfinu til framtíðar. Það er mikil þörf á að létta á málum í Hraunvallaskóla. Það gengur ekki lengur að láta nemendum þar fjölga um tugi og jafnvel hundrað á hverju hausti. Það er ekki hægt að stækka svona skóla endalaust,“ segir hún. 

Sala á lóðum í Skarðshlíð mun fjármagna nýja skólann.
Sala á lóðum í Skarðshlíð mun fjármagna nýja skólann.

Skóli í stað hjúkrunarheimilis

Skarðshlíðarskóli verður á lóð sem hafði verið tekin frá fyrir nýtt hjúkrunarheimili í Hafnarfirði. Þegar ákveðið var að byggja heimilið á Sólvangsreitnum í staðinn gafst tækifæri til að nýta lóðina undir skólahúsnæði. Rósa reiknar með því að um 600 grunnskólabörn verði í skólanum en ekkert hefur verið ákveðið með fermetrafjölda.

Lóðaúthlutun fjármagnar skóla

Hafnarfjarðarbær ætlar að úthluta lóðum í Skarðshlíð í vor samkvæmt breyttu deiliskipulagi. Tekjurnar sem fást af þeirri úthlutun verða notaðar í að fjármagna nýja skólann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert