Gríðarleg aukning á umferð

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Umferðin í janúar 2016 reyndist 13 prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra. Þetta er gríðarlega mikil aukning og hefur umferðin í janúar aldrei aukist jafnmikið og aldrei hafa fleiri bílar farið um mælisnið Vegagerðarinnar á Hringveginum í þessum mánuði.

Rétt er þó að huga að því að umferðin í janúar í fyrra dróst saman frá árinu áður (á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi) og alla jafna eru sveiflur nokkrar eftir tíðarfarinu í janúar, segir í frétt á vef Vegagerðarinnar.

Gamla metið í janúar var frá árinu 2009, en þá fóru 45.240 ökutæki að meðaltali á dag um þau svæði sem mælingar Vegagerðarinnar ná yfir á Hringveginum en nýja metið er 48.985 ökutæki. Þetta nýja met er því rúmlega 8% yfir því gamla frá árinu 2009. 

Aukningin mest á Austurlandi

Umferðin jókst um tveggja stafa tölu á öllum landssvæðum en mest um Austurland eða rúmlega 26%, en hafa ber í huga að hlutfallslega lítil umferð er um Austurland borið saman við önnur svæði. Minnst jókst umferðin um höfuðborgarsvæðið en aukningin þar mældist samt sem áður rúmlega 11%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert