Játaði eftir að hafa þekkt sig á upptöku

Fangaklefi á Litla Hrauni.
Fangaklefi á Litla Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti

Síbrotamaður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. mars en hann var síðast handtekinn á þriðjudag þar sem hann lá fyrir utan veitingahús með sjónvarpstæki og bjórpoka við hlið sér. Á honum fannst flugmiði og sjónvarpsfjarstýring.

Maðurinn á að baki töluverðan sakaferil en brotin sem hann er sakaður um nú ná aftur til ágúst í fyrra en hann lauk síðustu afplánun um miðjan júlí. Hann hefur játað á sig öll brotin nema eitt en það er stuldur á snyrtivörum úr verslun í desember. Lögreglan bíður eftir upptöku úr öryggismyndavélum verslunarinnar. Nokkrum dögum áður játaði hann á sig stuld á tveimur hangikjötslærum úr kæli verslunar eftir að hafa borið kennsl á sjálfan sig á upptöku úr öryggismyndavél verslunarinnar.

Laugardaginn 30. janúar 2016 barst lögreglu tilkynning um mann í annarlegu ástandi á göngu við braggana að Þórðarhöfða. Höfð afskipti af manninum sem var nokkuð lyfjaður og á reiðhjóli með fartölvu í bakpoka en auk þess fannst í bakpokanum krukka með ætluðu amfetamíni. Við skýrslutöku hjá lögreglu játaði hannað hafa farið inn í ólæstan bragga og stolið þaðan fartölvu og reiðhjóli.

Laugardaginn 23. janúar 2016 var farsíma stolið á gististað í Reykjavík. Kærði sást á myndbandsupptökum og viðurkenndi brotið. En líkt og hér eru flest brot hans tengd þjófnaði á vörum. 

Síðasti dómur sem hann hlaut var í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2012 er hann var dæmdur í 3 ára og 6 mánaða fangelsi fyrir þrjú rán og ránstilraunir þar sem hann ógnaði fólki. Kærði hafi lokið afplánun þann 15. júlí sl.

Ýmist talinn sakhæfur eða ósakhæfur

Við meðferð málsins fyrir dómi hafi farið fram geðrannsókn á kærða þar sem hann hafi verið metinn sakhæfur. Árið 2008 var hann dæmdur í 3 ára fangelsi og hafi þá einnig farið fram geðrannsókn á honum þar sem hann hafi verið metinn sakhæfur, en að ástand hans væri slíkt að 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga ætti við hann. „Nú var maður sá, sem verkið vann, andlega miður sín, svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðislegs misþroska eða annarrar truflunar, en þetta ástand hans er ekki á eins háu stigi og 15. gr. getur, og skal honum þá refsað fyrir brotið, ef ætla má eftir atvikum og eftir að læknisumsagnar hefur verið leitað, að refsing geti borið árangur.“

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2007 var hann aftur á móti metinn ósakhæfur skv. 15. gr. almennra hegningarlaga (Þeim mönnum skal eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum). Honum var hins vegar gert að sæta öryggisráðstöfun á stofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert