Leita ekki eftir fjárhagsstjórn í Reykjanesbæ

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri.

Ekki verður leitað eftir því að Reykjanesbæ verði skipuð fjárhagsstjórn. Nógu lítið ber á milli aðila varðandi hver skuldavandi Reykjanesbæjar sé til þess að halda áfram viðræðum við kröfuhafa og vinna að næstu skrefum í því máli. Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is.

Fyrr í vikunni var sagt frá því að bærinn hefði sent út bréf til stærstu kröfuhafa þar sem þeim var gefinn frestur til dagsins í dag til að bregðast við tillögum bæjarins um skuldamál sín. Í tilkynningu í dag kom fram að þær viðræður sem fylgdu hefðu skilað árangri og hafa aðilar sammælst um umfang skuldavanda sveitarfélagsins. Í kjölfarið mun vinna við fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar og stofnana hans halda áfram.

Bréfið verður ekki birt

Í samtali við mbl.is staðfestir Kjartan að í bréfinu hafi komið fram að horft væri til þess að skipa fjárhagsstjórn yfir bænum ef viðræðurnar skiluðu ekki árangri. Hafði verið stefnt að því að birta bréfið í dag, en Kjartan segir að efni þess heyri nú sögunni til og verði ekki birt.

Frá Reykjanesbæ.
Frá Reykjanesbæ. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það ber nógu lítið í milli til þess að halda áfram á þessum nótum,“ segir Kjartan. Aðspurður segir hann að engar ákvarðanir hafi þó verið teknar um umfang niðurfellinga eða annarra aðgerða. Skrefin sem hafi verið stigin í vikunni hafi aðallega miðað að því að sammælast um stærð vandans. „Nauðsynlegt að hafa sameiginlega sýn á það hver skuldavandinn sé,“ segir Kjartan.

Engin tímamörk hafa verið sett varðandi hvenær nánari tillögur eigi að liggja frammi, en Kjartan segir að næst verið farið í að ræða við hina fjölmörgu aðra kröfuhafa bæjarins varðandi næstu skref.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert