Ljósmæður og SÍ funda á mánudag

Sjálfstætt starfandi ljósmæður funda með Sjúkratryggingum Íslands á mánudaginn.
Sjálfstætt starfandi ljósmæður funda með Sjúkratryggingum Íslands á mánudaginn. mbl.is/Kristinn

Sjálfstætt starfandi ljósmæður funda með Sjúkratryggingum Íslands næstkomandi mánudag. Samkvæmt fjárlögum á að hækka greiðslur til þessa málaflokks um 1%. Sú hækkun er langt fyrir neðan vísitöluhækkanir. 

„Vonandi hafa þeir eitthvað betra fram að færa en þetta eina prósent. Boðið þarf að vera gott,“ segir Bergrún Svava Jónsdóttir, ljósmóðir.

Alls eru 115 ljósmæður aðilar að rammasamningi  við Sjúkratryggingar Íslands og fá greitt samkvæmt honum fyrir heimaþjónustu við sængurkonur, nýbura og fjölskyldur þeirra. Einnig fá þær greitt fyrir aðstoð við heimafæðingar. Rammasamningurinn, sem gilti til loka síðasta árs,  hefur hefur ekki verið endurnýjaður.

Nú þiggja 83,7% kvenna heimaþjónustu í sængurlegu og hefur sá fjöldi nær þrefaldast síðastliðin 10 ár.

Frétt mbl.is: Ljósmæður ósáttar við kjör sín

„Samningurinn er öðruvísi en lagt var upp með í upphafi. Við viljum jafnvel fá að taka hann og raða upp á nýtt. Við viljum fá verulegar hækkanir,“ segir Bergrún Svava.

5.000 kr. á tímann eftir 6 ára háskólanám

Sjálfstætt starfandi ljósmæður eru með tæplega 3.800 krónur á tímann í verktakavinnu og vonast þær til að sú tala fari yfir 5.000 krónur.  „Fimm þúsund krónur eftir sex ára háskóla nám er ekkert sérlega mikið,“ bætir hún við en ljósmæður funduðu með heilbrigðisráðherra á miðvikudag með góðum árangri.  

Að sögn Bergrúnar hafa ljósmæður fengið góðan stuðning í kjarabaráttu sinni, þar á meðal frá Þórði Þorkelssyni, yfirlækni vökudeildar á Landspítalanum. „Flestir voru svolítið hissa þegar þeir heyrðu hversu lágar greiðslurnar eru.“

Ef samningar nást ekki við Sjúkratryggingar Íslands ætla ljósmæðurnar að hætta að sinna heimaþjónustu frá og með næsta mánudagskvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert