Óvissustig áfram á Vestfjörðum

Það er óvissustig á Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu
Það er óvissustig á Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu mbl.is/Kristján

Óvissustig er í gildi á Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu og sex hús voru rýmd síðdegis í gær á Patreksfirði. Þar eru nánast allar leiðir ófærar og svipaða sögu er að segja víðar á landinu. Lögreglan á Ísafirði og Akureyri segja að allt hafi gengið vel í nótt en þokkalegt veður er innanbæjar.

Á Akureyri snjóar talsvert en henni fylgir ekki mikið rok innanbæjar. En ekki er hægt að komast langt út fyrir bæinn því ófært eru um Víkurskarð og Öxnadalsheiði. 

Stormi spáð fyrir norðan og austan 

Hálka, snjóþekja, þæfingur, skafrenningur, stórhríð og sumstaðar óveður er á Norðurlandi. Vegirnir um Vatnsskarð, Siglufjarðarveg, Öxnadalsheiði og Víkurskarð er lokaðir. Ófært og stórhríð er á Grenivíkurvegi. Ófært og stórhríð er á Mývatnsöræfum og Hálsum.

Hálka, snjóþekja, skafrenningur og sumstaðar stórhríð er á flestum aðalleiðum á Austurlandi. Ófært og stórhríð er á Möðrudalsöræfum og Vatnsskarði eystra. Ófært er á Fjarðarheiði og Oddsskarði. Ófært er á milli Hafnar og Hvalnes.

Gert er ráð fyrir stormi eða roki (20 til 28 m/s) á norðan- og austanverðu landinu í dag en spáin er svo hljóðandi fyrir næsta sólarhring:

 Austan 20-28 m/s norðan- og austan til, hvassast á annesjum og snjókoma, en sunnan og suðaustan 8-13 og él sunnan til. Sunnan og suðaustan 8-15 og víða él í dag, en norðaustan 20-28 og snjókoma á Vestfjörðum til kvölds. Bætir heldur í vind og úrkomu sunnan- og austan til með kvöldinu. Austan og norðaustan 8-13 og dálítil él á morgun, en 13-18 á Vestfjörðum. Hiti 0 til 5 stig sunnanlands, en frost annars 0 til 5 stig.

Staðan metin í birtingu

Á Ísafirði er mjög hvasst en lítið snjóar þar á bæ að sögn lögreglunnar á Ísafirði. Veðurspáin er hins vegar ekki góð fyrir Vestfirði þannig að það má búast við versnandi veðri þegar líður á morguninn. Staðan á Patreksfirði verður metin með morgninum en þar er hættustig vegna snjóflóða. 

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu er á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum. Austan stormur er á Vestfjörðum og snjókoma. Grannt hefur verið fylgst með stöðu mála í alla nótt og verður staðan metin með morgninum en veðrið á að ganga niður í kvöld.

Hálka, snjóþekja, skafrenningur og stórhríð er á flestu leiðum á Vestfjörðum og víðast hvar snjókoma og skafrenningur. Þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi og mjög hvasst og versnandi færð er í kringum Ísafjörð. Ófært er í Önundarfirði, á Gemlufallsheiði, Mikladal, Hálfdán, Kleifaheiði og Klettshálsi. Ófært er á Drangsnes. Lokað er á Þröskuldum, Steingrímsfjarðarheiði og um Súðavíkurhlíð.

Hálka, snjóþekja, skafrenningur, stórhríð og sumstaðar óveður er á Vesturlandi. Lokað er á Holtavörðuheiði sem og Fróðárheiði. Þæfingsfærð og snjókoma er á Vatnaleið og í Álftafirði og þungfært og stórhríð á Útnesvegi og á norðanverðu Snæfellsnesi. Ófært er á Svínadal og Bröttubrekku.

Leiðin austur fyrir fjall orðin fær

Þjóðvegi 1 frá Hvolsvelli að Jökulsá á Breiðamerkursandi var lokað eftir hádegi í gær og síðdegis í gær var Sandskeiði, Hellisheiði, Þrengslum, Mosfellsheiði og Lyngdalsheið lokað.  Leiðin austur fyrir fjall var síðan opnuð seint í gærkvöldi þegar það tók að lægja. Enn er þjóðvegur 1 lokaður frá Steinum undir Eyjafjöllum austur að Jökulsá á Breiðamerkursandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert