Tekur vonandi ekki annað ár

Frá Reykjanesbæ.
Frá Reykjanesbæ. mbl.is/Árni Sæberg

Reykjanesbær sammæltist í dag við stærstu kröfuhafa sína um umfang skuldavanda sveitarfélagsins. Stærsti kröfuhafinn eru kröfuhafar Eignarhaldsfélagsins Fasteign ehf.: Glitnir HoldCo ehf. f.h. Ríkissjóður Íslands, Landsbankinn hf. og Íslandsbanki hf.

Skuldir Reykjanesbæjar nema rúmum 44 milljörðum króna og hafa viðræður við kröfuhafa staðið yfir frá því í mars þar sem óeining var milli kröfuhafa og bæjarins um greiðslugetu og þörf á skuldaniðurfellingu.

Í dag náðist loks niðurstaða og segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar þetta mjög mikilvægan áfanga.

Skilgreiningu skuldavandans sé kannski ekki lokið á fullu, enda eigi enn eftir að semja við smærri kröfuhafa um afmörkun skuldavandans, en nú sé loks hægt að halda áfram og taka næstu skref. Vinna við fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar og stofnanna þess geti haldið áfram

„Við erum búin að vera í þessum samningaviðræðum í bráðum ár,“ segir Kjartan. „Nú eru þeir orðnir sannfærðir um að við séum ekki að ljúga neinu, þetta sé svona, og þá vonumst við til að af því að þeir eru stærstir treysti þeir minni þeirri vinnu.“

Hann segir mikla vinnu framundan enda þurfi að ákveða hvað eða hversu mikið renni til hvers kröfuhafa og hvernig því ferli verður háttað.

En skyldi þá vera annað ár af samningaviðræðum í vændum?

„Vonandi ekki,“ segir Kjartan. „Ég vona að þetta taki einhverjar vikur, kannski mánuði en ekki árið, svo sannarlega ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert