Vilja ekki að DiCaprio líti út eins og skepna

Heba Þórisdóttir.
Heba Þórisdóttir. Ingólfur Guðmundsson

Heba Þórisdóttir förðunarmeistari fékk það verðuga verkefni að farða sjálfan Leonardo DiCaprio meðan tökur á kvikmynd Quentins Tarantinos, Django Unchained, stóðu yfir. Útlitið getur haft áhrif á frammistöðu og hvernig leikarinn upplifir sig en þar með er ekki öll sagan sögð. Það getur þurft að fara milliveginn á milli þess sem leikarinn vill og hvað framleiðendurnir segja, að sögn Hebu. 

„Framleiðendurnir vilja Leo,“ segir Heba en þessi myndarlegi maður selur. „Þeir vilja ekki að hann líti út eins og skepna. Ég þarf að labba þarna á milli og tala hann inn á að vera meira eins og hann sjálfur. Eina sem var eftir voru tennurnar. Hann gerði mér alltaf þann greiða að þegar hann var búinn að gera tennurnar í sér alveg svartar vissi hann að ég yrði í vandræðum ef framleiðendurnir sæju þær. Hann talaði þá alltaf ofan í sig og faldi þær.
Varðandi traustið, þegar við vorum búin að vinna saman í þrjá daga málaði hann þær, leit á mig, brosti og spurði: Hvernig eru tennurnar núna? Þarf ég meira eða minna? Ég sagði að þær væru alveg fullkomnar. Og hann svaraði: Þú stóðst prófið. Hann vissi að þær væru nákvæmlega eins og þær ættu að vera en vildi vera viss um að ég vissi það,“ segir hún og útskýrir nánar:

„Þannig að þegar við förum á settið seinna og ég er að laga hann til veit hann að ég er að gera rétt. Hann er allt í einu með nýja manneskju og þarf að vita að hann geti treyst mér. Hann þarf að vita hvernig auga ég hef.“

Heba Þórisdóttir fer betur yfir feril sinn sem förðunarmeistari stjarnanna í Hollywood í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hún hefur verið með margar dásamlegar leikkonur í stólnum hjá sér síðustu ár eins og Scarlett Johansson, Cate Blanchett, Söru Silverman og Kristen Wiig svo einhverjar séu nefndar.

Leonardo DiCaprio.
Leonardo DiCaprio. Frazer Harrison
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert