Erfitt að fá ærumeiðingar fjarlægðar

Ærumeiðingar á internetinu hafa aukist síðustu árin.
Ærumeiðingar á internetinu hafa aukist síðustu árin. Benjamin Goode

„Það er mikilvægt að taka þá umræðu hvort þeir sem verða fyrir ærumeiðingum á netinu séu nægilega vel verndaðir. Við sjáum þetta nánast á hverjum degi út um allt þar sem hátt og hart er reitt til höggs,“ segir Ragnar Tómas Árnason hæstaréttarlögmaður hjá LOGOS en hann flutti erindi í vikunni á UTmessunni í Hörpu og velti því þar upp hvort núverandi ástand hérlendis væri ásættanlegt í þessum efnum en erindi hans fjallaði um ábyrgð þjónustuveitenda á netinu á ærumeiðandi efni.

Til eru fjölmörg dæmi, sum mjög alvarleg, um ærumeiðingar á samfélagsmiðlum. Ærumeiðingar geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem verður fyrir og raunverulegir hagsmunir verið í húfi. Þau úrræði sem til eru í dag til að fá alvarlegar ærumeiðingar fjarlægðar, lögbann og dómstólar, geta verið tímafrek og sá tími sem það tekur því oft dýrkeyptur. 

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er rætt við Ragnar Tómas um málefnið en hérlendis er vaxandi iðnaður á sviði hýsingar og þá bjóða fjölmiðlar og farsímafyrirtæki upp á slíka þjónustu með því að hýsa heimasíður, blogg og athugasemdakerfi. Hvaða ábyrgð bera hýsingaraðilar þegar upp koma dæmi um ærumeiðingar?

„Hýsingaraðilar verða samkvæmt skilgreiningu tengdri ábyrgð að vera hlutlausir. Þeir eru að geyma upplýsingar að beiðni þjónustuþegans.

Ef við horfum til Bandaríkjanna þá var sett löggjöf þar árið 1996 sem veitti víðtæka friðhelgi til hýsingaraðila. Þar er nánast ómögulegt að gera þá ábyrga á grundvelli þess að þeir hefðu átt að hafa einhverja almenna vitneskju um að efni sem þeir geymdu væri ólögmætt eða ærumeiðandi.

Hins vegar fylgdu Evrópustofnanir ekki í fótspor þeirra þegar þær settu tilskipun árið 2000 sem gildir á EES-svæðinu. Með henni var settur rammi fyrir aðildarríkin um þá ábyrgð sem þau mega leggja á hýsingaraðila. Aðildarríkin mega ekki fara út fyrir rammann en mega vera hvar sem er innan hans.“

Samkvæmt þessari tilskipun mega aðildarríkin leggja þá ábyrgð á hýsingaraðila að hann verði að grípa tafarlaust til aðgerða hafi hann vitneskju um ólögmæta starfsemi eða upplýsingar. Og skiptir þá ekki máli hvernig honum berast þær upplýsingar. Á móti kemur að tilskipunin bannar aðildarríkjum að leggja einhverja eftirlits- eða rannsóknarskyldu á hýsingaraðilann.

„Þetta hljómar kannski ekki það flókið en það er hins vegar þannig að það er mjög erfitt að meta það hvenær maður hefur vitneskju um ólöglega starfsemi eða upplýsingar, það er mjög flókið lögfræðilegt úrlausnarefni. Síðan ef hýsingaraðilar telja sig hafa slíka vitneskju þá er það þetta með að bregðast tafar8laust við. Hvað er tafarlaust? Er það klukkutími eða dagur?“

Ragnar Tómas Árnason hæstaréttarlögmaður.
Ragnar Tómas Árnason hæstaréttarlögmaður. Morgunblaðið/RAX

Mörg lönd, þar á meðal Ísland, hafa horft til Bandaríkjanna og ákveðið að ábyrgð hýsingaraðila sé mjög þröng. Ragnar Tómas segir að því geti hýsingaraðilinn verið  ósköp rólegur yfir því efni sem hann hýsir því ekkert getur raunverulega virkjað hans ábyrgð nema lögbann frá sýslumanni eða dómur frá íslenskum dómstólum um viðkomandi gögn.

Hýsingaraðilinn getur leitt hjá sér alla vitneskju sem hann fær um ólögmæta starfsemi eða ummæli ef hann fær ekki rautt spjald frá dómstólum eða sýslumanni. Hann þarf ekki að fjarlægja gögnin eða hindra aðgang að þeim án tafar en sérreglur gilda reyndar um barnaklám og brot gegn höfundarrétti. Með þessu er málfrelsið kirfilega verndað og hýsingaraðilinn freistast síður til að fjarlægja efni til að forðast minnstu mögulegu ábyrgð. Ragnar Tómas segir þó augljósa ókosti við þetta fyrirkomulag eins og það er.

„Það getur tekið þann sem verður fyrir ærumeiðingu langan tíma og mikið fé að fá fram niðurstöðu hjá sýslumanni eða dómstólum. Á meðan heldur ærumeiðingin áfram á netinu, jafnvel alvarleg og hættuleg velferð þess sem fyrir henni verður, og hýsingaraðilinn þarf ekki að bregðast við. Hér á landi þekkjum við dæmi um að fólk er nafngreint til dæmis fyrir að hafa drepið gæludýr sem voru svo aldrei drepin og ofbeldisbrot sem það framdi svo ekki. Þá snýr þetta líka að hefndarklámi sem getur verið komið í mikla dreifingu áður en lögbann fæst og skaðinn þá skeður.“

En er eitthvað hægt að gera án þess að  það komi niður á tjáningarfrelsinu?

„Ég tel að hýsingaraðilar á Íslandi eigi að sýna þessu víðtæka skilyrta ábyrgðarleysi ákveðna virðingu og axla samfélagslega ábyrgð með einhvers konar sjálfseftirliti. Þannig gæti náðst rétt jafnvægi milli tjáningarfrelsis og persónuverndar. Í Evróputilskipuninni er hvatt til þess að atvinnugreinar og neytendasamtök setji sér siðareglur til að ná utan um þetta og þannig væri hægt að reyna að stemma stigu við að minnsta kosti augljósum brotum. Iðnaðurinn væri þannig sjálfur að axla ákveðna samfélagslega ábyrgð. Því strangt til tekið leyfir tilskipunin að þeir séu ábyrgir um leið og þeir fá vitneskju, hvar og hvernig sem er. Íslenski löggjafinn hefur það alveg í sínu valdi, án þess að fara út fyrir rammann, að ákveða að hýsingaraðilar á Íslandi beri ábyrgð frá tíma sem þeir fá á einhvern hátt vitneskju um ólögmætt efni og verði þá tafarlaust að fjarlægja efnið eða sæta ella ábyrgð.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert