Fara ekki inn í ófullnægjandi kerfi

Tvær stúlkur á göngu með öðru flóttafólki við landamæri Makedóníu …
Tvær stúlkur á göngu með öðru flóttafólki við landamæri Makedóníu og Serbíu. AFP

 Endursendingum flóttafólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd í Grikklandi og Ungverjalandi hefur ekki verið hætt þar sem viðkomandi hafa fengið útgefin dvalarleyfi og fara ekki inn í hæliskerfi ríkjanna. Endursendingum til Ítalíu hefur ekki verið hætt en hvert tilvik fyrir sig er nú skoðað sérstaklega.

Þetta segir í nýrri grein á vef Útlendingastofnunnar sem ber yfirskriftina „Um endursendingar“.

Í henni kemur fram að hætt hafi verið að senda hælisleitendur til Grikklands frá Íslandi árið 2010 þar sem aðstæður í gríska hæliskerfinu voru taldar ófullnægjandi. Ekki hafði verið talin ástæða til að endurskoða þá afstöðu enn. Í október 2015 var ákveðið að láta sömuleiðis af endursendingum til Ungverjalands vegna mikils og skyndilegs álags á hæliskerfi landsins og gagnrýni á aðstæður hælisleitenda.

„Flóttamanna- og hæliskerfið er neyðarkerfi, ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi,“ segir í upphafi greinarinnar.  „Sé ástæða til að ætla að umsækjandi yrði í hættu eða hans bíði á annan hátt óviðunandi aðstæður í því landi sem hann skal endursendur til eða ef ekki er talið öruggt að hann verði sendur áfram þaðan í slíkar aðstæður kemur ekki til greina að vísa umsækjanda til viðkomandi ríkis.“ 

Brjóta ekki gegn alþjóðlegum skuldbindingum

Í greininni er fjallað um dóma Hæstaréttar í málum tveggja hælisleitenda þar sem staðfest var sú niðurstaða Útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytisins að ekki væri raunveruleg hætta á að umsækjendur sættu illri meðferð sem hælisleitendur á Ítalíu.

„Í dómum héraðsdóms Reykjavíkur í málinu, sem Hæstiréttur staðfesti, kom fram að aðstæður á Ítalíu hefðu verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti af hálfu Útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytisins.“ segir í greininni.

Þar kemur þó jafnframt fram í greininni. að í kjölfar dómanna hafi innanríkisráðuneytið kannað aðstæður hælisleitenda á Ítalíu að nýju. Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að endursendingar til Ítalíu brytu almennt ekki gegn alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins. Þá hefðu ítölsk stjórnvöld komið á góðri almennri framkvæmd í málefnum sérstaklega viðkvæmra einstaklinga.

„Í ljósi þess að úrbóta væri að einhverju leyti enn þörf og ítölsk yfirvöld tækjust nú á við margvíslegar áskoranir í málaflokknum var það aftur á móti niðurstaða ráðuneytisins að, í samræmi við almenna framkvæmd síðan í maí 2014, skyldi hvert mál athugað sérstaklega þegar fólk teldist í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Væri endursending til Ítalíu talin varhugaverð með hliðsjón af viðkvæmri stöðu umsækjanda og einstaklingsbundinna aðstæðna skyldi ekki senda viðkomandi þangað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Er framkvæmd Útlendingastofnunar undanfarin misseri í samræmi við þetta og mun stofnunin halda áfram að aðgæta sérstaklega aðstæður fólks sem snýr aftur til Ítalíu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert