Bið eftir hjartaþræðingu styttist ört

Ísland er sagt standa vel í samanburði við Norðurlönd.
Ísland er sagt standa vel í samanburði við Norðurlönd. mbl.is/Ómar

Biðlistar vegna hjartaþræðingar á Landspítala hafa styst jafnt og þétt á undanförnu einu og hálfu ári. Í október árið 2014 biðu 274 einstaklingar eftir slíkri aðgerð en ári seinna hafði sú tala lækkað í 171. Nú í janúar biðu 92 einstaklingar eftir hjartaþræðingu.

Langflestir bíða skemur en þrjá mánuði að sögn Leifs Bárðarsonar, sviðsstjóra eftirlits og gæða hjá embætti landlæknis.

„Þau hafa unnið kerfisbundið að því að stytta þessa biðlista og það er í raun engu öðru að þakka, því ekki er hægt að segja að sjúklingum hafi fækkað á sama tíma,“ segir Leifur og bætir við að full ástæða hafi verið til.

„Þegar 274 eru að bíða eftir hjartaþræðingu þá er ástandið ekki gott, það verður bara að segja alveg eins og er.“ Hann segir þá miklu lengd biðlistans skýrast meðal annars af verkfalli lækna árið 2014.

„Hann er langur þegar verkfallið skellur á en þá fer allt til fjandans.“

Biðlistar lengst í verkfallshrinunni

Leifur segir að í samanburði við Norðurlönd standi Ísland jafnan vel hvað varðar biðlista eftir hjartaaðgerðum.

„Yfirleitt höfum við staðið okkur ágætlega í þessu þó að núna í verkfallshrinunni hafi biðlistar auðvitað lengst. En svona undir eðlilegum kringumstæðum þá höfum verið í lægsta kantinum. Það hefur alltaf verið mjög gott og þess vegna hefur maður einmitt áhyggjur þegar biðlistar fara að lengjast.“

Fjöldi sjúklinga sem biðu eftir hjartaþræðingu á LSH fram í …
Fjöldi sjúklinga sem biðu eftir hjartaþræðingu á LSH fram í janúar 2016. Súlurit/Landlæknisembættið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert