Bílastæðagjöld tvöfaldast við Leifsstöð

Gjaldskrá bílastæða við flugvöllinn mun hækka allt að tvöfalt 1. …
Gjaldskrá bílastæða við flugvöllinn mun hækka allt að tvöfalt 1. apríl.

Bílastæðagjöld á Keflavíkurflugvelli munu hækka um 30 til 117% með breytingu sem tekur gildi 1. apríl næstkomandi. Mesta breytingin verður á verði fyrir skammtímastæði, en þau hækka úr 230 krónum fyrir fyrstu klukkustundina upp í 500 krónur. Langtímastæði hækka einnig umtalsvert. Í frétt á vef Isavia kemur fram að hækkunin sé vegna framkvæmda við fjölgun stæða, en á annatímum sé nýting stæða allt að 96%.

Isavia segir að vegna mikillar fjölgunar farþega um völlinn hafi ásókn í bílastæði aukist mikið. Vegna þess sé nauðsynlegt að fara í framkvæmdir og fjölga stæðum, en í dag eru 2.100 við völlinn. Því sé farin sú leið að hækka gjöldin til að geta staðið undir kostnaði við stækkunarframkvæmdir. Einnig verði tekin upp gjaldtaka á starfsmannabílastæðum við flugstöðina. Breytingarnar eru eftirfarandi:

Skammtímastæði á svæðum P1 og P2:

Verð nú: 230 krónur á klukkustund
Fyrstu 15 mínútur verða gjaldfrjálsar
Fyrsta klukkustund verður 500 krónur og hækkar um 117%.
Hver klukkustund eftir það 750 krónur.

Langtímastæði:

Fyrsta vika úr 950 krónum í 1.250 krónur á sólarhring, eða upp um 32%.
Önnur vika úr 600 krónum í 950 krónur á sólarhring, eða upp um 58%
Þriðja vika úr 400 krónur í 800 krónur á sólarhring eða upp um 100%.

Framkvæmdir eru þegar hafnar við ný starfsmannastæði og munu núverandi starfsmannastæði bætast fljótlega við núverandi langtímastæði. Með þessu mun farþegastæðum fjölga strax um 300. Segir Isavia að hækkunin sé óhjákvæmileg til að standa undir þessum breytingum, en stefna félagsins er að bílastæðin standi undir kostnaði sem þarf að ráðast í. Segir að síðast þegar gjaldskránni var breytt hafi verið ákveðið að hún væri í takt í gjaldskrá P1-bílastæða í Reykjavík.

Þrátt fyrir hækkunina verður enn mun ódýrara að leggja bílum á stæðum við Keflavíkurflugvöll en á helstu alþjóðaflugvöllum í Evrópu. Áfram verða fyrstu 15 mínúturnar gjaldfrjálsar í skammtímastæðum. „Vegna gríðarlegrar fjölgunar farþega umfram þær spár sem lágu fyrir við síðustu endurskoðun þarf að flýta framkvæmdum og því reynist ekki mögulegt að halda þeirri verðstefnu óbreyttri,“ segir í frétt Isavia.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert