Elduðu sig inn í úrslitakeppnina

Fimm kokkar komust í undanúrslitin.
Fimm kokkar komust í undanúrslitin. Ljósmynd/Eiríkur Ingi Helgason

Fimm keppendur komust áfram í úrslit keppninnar Kokkur ársins 2016 í dag en undanúrslit fóru fram í Hörpu. Tíu tóku þátt og elduðu kjúklingarétt fyrir átta manna dómnefnd, sem valdi útfrá útliti, bragði og vinnubrögðum í eldhúsi.

Þeir sem komust áfram voru: Ari Þór Gunnarsson hjá Fiskfélaginu, Axel Björn Clausen Matias hjá Fiskmarkaðnum, Denis Grbic hjá Grillinu á Hótel Sögu, Hafsteinn Ólafsson hjá Nasa og Sigurjón Bragi Geirsson hjá Kolabrautinni.

Úrslitakeppnin fer fram laugardaginn 13. febrúar í Flóa í Hörpu milli kl. 15 og 23.

„Keppendur munu elda þriggja rétta matseðil sem samanstendur af forrétti, aðalrétti og eftirrétti. Samhliða úrslitakeppninni verður glæsilegur fjórrétta Kokkalandsliðskvöldverður og vegleg dagskrá. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun krýna sigurvegara keppninnar kl. 23:00 sem hlýtur titilinn Kokkur ársins 2016.  

Sigurvegarinn  mun keppa fyrir Íslands hönd í keppninni „Nordic Chef Of The Year“ sem fram fer 8. mars 2016 í Herning Danmörku.

Það eru Klúbbur matreiðslumeistara og Kokkalandsliðið sem standa að keppninni Kokkur ársins,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert