Ákærður fyrir 74 milljóna fjársvik

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness seinna í vikunni.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness seinna í vikunni. mbl.is/Ómar

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir fjársvik, skjalafals og brot á lögum um gjaldeyrismál með því að hafa á árunum 2010 til 2012 fengið fjóra einstaklinga og félag til að greiða sér rúmlega 74 milljónir í þeirri trú að um væri að ræða fjárfestingasjóð í Bandaríkjunum. Voru fjármunirnir því næst sendir áfram á erlend félög sem ákærði stýrði. Fénu ráðstafaði hann í eigin þágu sem gat ekki samrýmst ætluðum fjárfestingum brotaþola. Ekkert hefur verið endurheimt af fénu.

Hinn ákærði er í ákærunni sagður hafa blekkt brotaþola til að halda að til væri sjóður sem héti Skajaquoda fund, en hann var í raun aldrei starfræktur í neinni eiginlegri mynd. Voru hagnaðarvon, eðli fjárfestinga og önnur mál sjóðsins tilbúningur ákærða, enda hafði sjóðurinn aldrei verið stofnaður eða starfræktur. Fóru millifærslur brotaþola þess í stað inn á bankareikning íslensks félags sem bar nafnið Skajaquoda ehf. sem voru millifærðir áfram á erlend félög sem ákærði stýrði eða á reikning erlendu félaganna beint.

Ákærði í málinu sendi brotaþolum reglulega upplýsingar um góða ávöxtun fjármunanna, en hann sendi þeim mánaðarleg yfirlit þess efnis. Þá bjó ákærði einnig til „fréttabréf“ sem var stílað á „sjóðsfélaga“ á árinu 2012, en þar var fjallað um sjóðinn og starfsemi hans. Í lokabréfinu var fjallað um slit sjóðsins. Segir í ákærunni að telja megi fé brotaþola með öllu glatað.

Í gjaldeyrishluta ákærunnar er maðurinn ákærður fyrir að hafa millifært samtals 220 milljónir króna frá október 2011 til júlí 2013 á reikninga félaganna Skajaquoda Group inc, Skajaquoda capital LLC eða Likenia inc. í Bandaríkjunum. Voru fjármunirnir teknir af reikningi tveggja íslenskra félaga sem maðurinn stýrði. Á bak við greiðslurnar voru ekki kaup á vöru, þjónustu eða öðru sem lög um gjaldeyrismál heimila.

Þá er maðurinn ákærður fyrir skjalafals þegar hann fékk Íslandsbanka til að millifæra fyrir sig 4,8 milljónir af bankareikningi Skajaquoda hér á landi til Bandaríkjanna. Hafði hann fengið höfnun á færsluna þar sem ekki lá fyrir reikningur, en þá bjó hann til reikning sem ekkert var á bak við og sendi á bankann sem í framhaldinu framkvæmdi millifærsluna.

Saksóknari hefur lagt hald á 67 milljónir á reikningi Skajaquoda ehf. og er farið fram á að sú fjárhæð verði gerð upptæk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert