Safna fyrir flóttafólk í Frakklandi

Frá Calais í Frakklandi.
Frá Calais í Frakklandi. AFP

Næstu daga verður tekið á móti fötum og nauðsynjavörum fyrir flóttafólks sem hefst við í flóttamannabúðum í Calais og Dunkerque í Frakklandi. Um er að ræða sjálfsprottnar búðir en ekki skipulagðar af yfirvöldum og því fær fólkið aðeins aðstoð frá sjálfboðaliðum.

Í tilkynningu frá þeim sem standa að söfnuninni segir að veturinn sé kaldur og blautur á þessum slóðum og flóttafólkið hafist við í „ömurlegum aðstæðum.“

„Til þess að koma þessu fólki til aðstoðar höfum við ákveðið að blása til söfnunar hér á landi. Ástæðan er ekki síst sú að íslenskur lopafatnaður myndi koma sér sérstaklega vel í þessum aðstæðum þar sem bæði þarf að halda úti kulda og raka. En þó er ýmislegt annað sem vantar eins og sjá má á listunum hér fyrir neðan.

Fyrir búðirnar í Calais vantar fyrst og fremst karlmannsföt, en fyrir Dunkerque búðirnar eru þarfirnar margvíslegri. Við biðjum ykkur samt um að sýna skynsemi og huga að aðstæðum og þörfum fólksins sem um ræðir, þess vegna eru öll spariföt vinsamlega afþökkuð,“ segir á Facebook-síðu söfnunarinnar.  

Söfnunin fer fram dagana 8.-13. febrúar að Grundarstíg 12 í miðbæ Reykjavíkur. Tekið verður á móti nauðsynjavörum frá kl.11-15.30 dagana 8.-10. febrúar en frá kl.11-17.30 11 og 12. febrúar og frá kl.10-12 laugardaginn 13.febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert