90 dagar í Airbnb-frumvarpi of mikið

Samtök ferðaþjónustu segja þriggja mánaða tímabil þar sem sérstakar ívilnanir …
Samtök ferðaþjónustu segja þriggja mánaða tímabil þar sem sérstakar ívilnanir gilda um heimagistingu of mikið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samtök ferðaþjónustunnar gera athugasemdir við frumvarp um breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sem komið er fram. Segja samtökin að sá tímarammi þar sem heimilt er að veita heimagistingu með sérstökum ívilnunum sé allt of rúmur og skekki samkeppnisstöðu gististaða.

Í frumvarpinu er horft til þess að leyfilegt sé að vera með heimagistingu með sérstökum ívilnunum í þrjá mánuði á ári, en áður hafði verið horft til 58 daga. Samtökin hafa sjálf lagt til að miðað væri við 6-8 vikur og að það sé í samræmi við það sem gengur og gerist erlendis.

Í tilkynningu frá samtökunum er bent á að mörg sumarhótel séu opin í 90 daga á ári og því væri eðlilegt að tímabil heimagistingar sé styttra til að gæta að samkeppnisstöðu þeirra sem séu í hefðbundnum rekstri.

Þá vilja samtökin ekki að heimagisting geti farið fram samtímis í tveimur eignum sem séu skráðar á sama aðila, þrátt fyrir að tvær eignir geti verið í boði. Segir í tilkynningu samtakanna að hugmyndin með breytingunum sé að leigusali hafi fast aðsetur í annarri eigninni, annars sé um hreina atvinnustarfsemi að ræða og því eðlilegt að eðlileg fasteignagjöld séu greidd af því, en fasteignagjöld af atvinnurekstri eru talsvert hærri en á íbúðarhúsnæði.

Samtökin benda á að samkvæmt upplýsingum frá heimasíðunni Airbnb séu tæpar 4.000 íbúðir í boði á landinu, en það nemur um 8.000 herbergjum. Vísað er til þess að aðeins 13% þessara aðila séu með tilskilin leyfi og þannig sé t.d. minnihluti gistirekstrar í Reykjavík nú í löglegum rekstri. Það sé markmið samtakanna að byggja upp ferðaþjónustuna sem alvöru atvinnugrein þar sem allir sitji við sama borð og borgi sína skatta og skyldur. „Við það ástand, sem upp er komið hér á landi, á engin atvinnugrein að búa,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert